151. löggjafarþing — 108. fundur,  7. júní 2021.

almennar stjórnmálaumræður (eldhúsdagsumræður).

[20:29]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Kæra þjóð. Flokkur fólksins er málsvari gleymda fólksins. Flokkur fólksins er málsvari þeirra sem þöggunin ríkir um. Flokkur fólksins er fyrir þann þriðjung þjóðarinnar sem býr hér í örbirgð. Eitt er víst að við erum stolt af þeim verkum sem við höfum unnið hér á Alþingi Íslendinga í ykkar umboði þar sem okkur hefur gefist tækifæri til þess — og ekki verður á móti því mælt og enginn hefur á móti því mælt — að vera rödd gleymda fólksins, fólksins sem hefur mátt búa við þöggun í áratugi. Sú rödd hefur heyrst frá æðsta ræðupúlti landsins og hefur orðið þess valdandi að það fer ekki á milli mála, það er enginn sem hefur misst af því hvernig ástandið er í samfélaginu þó að allt of margir, sérstaklega í þessum sal, láti sem ekkert sé.

Það er alveg með ólíkindum að hlusta á þann söng sem ég hef verið að hlusta á hér í kvöld, með fullri virðingu. Nánast allir þeir talsmenn sem hér hafa komið upp hafa sjálfir eða sjálfar verið í ríkisstjórn og hafa haft aðstöðu og aðstæður til að hafa hlutina svolítið öðruvísi: Við viljum þetta og við viljum hitt. — En af hverju hefur það þá ekki verið gert?

Virðulegi forseti. Kæra þjóð. Það búa tvær þjóðir í landinu. Það er risagjá á milli þeirra. Á öðrum bakkanum standa þeir sem allt eiga og græðgi og auðmagn og sjálftaka hefur skapað þeirra tilveru og þeirra líf. Á hinum bakkanum eru svo hinir sem ekkert eiga og þurfa að biðja um ölmusuna. Flokkur fólksins vill byggja brú yfir þessa gjá. Við erum búin að mæla fyrir hátt í 40 þingmálum, þingmannamálum, frá því að við komum hér inn og fengum aðstöðu til þess að tala hér í þessum æðsta ræðustóli. En hvernig hefur farið fyrir þeim málum? Ég hvet ykkur, kæru landsmenn, að skoða verkin sem við höfum verið að vinna. Þá vitið þið að hugur fylgir máli.

En eitt er alveg víst að þessi ríkisstjórn hefur ekki rétt okkur marga steina til að reyna að byggja þessa brú á milli þeirra sem allt eiga og hinna sem eiga ekkert. Þegar verið er að tala um að það verði kosningar í haust og að sjálfsögðu verða kosningar í haust: Hvað er það sem þið viljið, kæra þjóð? Viljið þið óbreytt ástand? Viljið hafa þetta ástand sem við búum við í dag þar sem sérhagsmunir og græðgisvæðing ræður ríkjum? Þar sem spillingin er svo augljós að hún er áþreifanleg. Og eins og ágætur þingmaður sagði, hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir: Loksins er verið að rjúfa þöggunina um spillinguna, um græðgina. En við þurfum að halda því áfram. Við getum ekki stoppað hér.

Virðulegi forseti. Kæru landsmenn. Mig langar sérstaklega að tala um menntun barnanna okkar, að tala um mannauðinn sem aldrei fær að blómstra, tala um mannauðinn sem býr líka í öryrkjum, öldruðum og fötluðum einstaklingum, gríðarstór mannauður sem ekki er nýttur og aldrei fær að blómstra. Hvers vegna útskrifast 34% ungra drengja með lélegan lesskilning eða ólæsir eftir tíu ára skólagöngu í grunnskóla? Hvernig í veröldinni má það vera? Og það hefur bara akkúrat ekkert breyst allt þetta kjörtímabil, þvert á móti. Hvernig stendur á því að það er ekki hægt að stíga út fyrir boxið í þessari niðurnjörvuðu menntastefnu, að taka utan um litlu einstaklingana strax og þeir komu inn í skólann og hjálpa þeim að læra að lesa? Hvað er svona flókið við það? Hvernig stendur á því að það er hrúgað á þau fullt af námsgögnum, jafnvel erlendum tungumálum, og þau eru ólæs á sitt eigið? Og svo er fólk furðu lostið yfir vaxandi sálfræðilegum erfiðleikum hjá unga fólkinu okkar. Hvernig dettur nokkrum í hug að 34% ungra drengja og 22% ungra stúlkna sem eiga sína framtíðardrauma — hvernig líður þessu unga fólki þegar það stígur inn í framhaldsskóla? Er einhver hissa á að því líði illa? Ekki ég. Ég er ekki hissa á því. Ég er bara hissa á því að hlutirnir skuli ekki vera lagaðir. Ég er bara hissa á því hvers lags þöggun, hvers lags feluleikur er raunverulega um hluti sem við eigum fyrir löngu að vera búin að laga.

Það er með hreinum og klárum ólíkindum þegar við komum hér með fjárauka eftir fjárauka, fjármálaáætlun til fimm ára, við komum hér með fjárlög og samt er enn þá skilinn eftir risastór hópur úti í samfélaginu sem ekki er tekið utan um. Hér sagði núverandi hæstv. forsætisráðherra í september 2017 um stefnuræðu þáverandi forsætisráðherra, Bjarna Benediktssonar, að það að láta fátækt fólk bíða eftir réttlætinu væri það sama og að neita því um réttlæti. Samt er það svo núna undir forystu Vinstri grænna og hæstv. forsætisráðherra, sem mælti þessi orð á þeim tíma, að biðraðir lengjast í hjálparstofnanir þar sem fátækt fólk er að biðja um mat.

Jafnvel frístundakort barnanna okkar, sem eiga að gera það að verkum að þau geti stundað íþróttir á sumrin eða eitthvert félagsstarf, þar á meðal börn innflytjenda — en foreldrar þessara barna reyna að nýta frístundakortin til að læra íslensku. Svona tökum við nú utan um nýbúana okkar. Það er skömm að þessu, virðulegi forseti. Algjör skömm.

Flokkur fólksins hefur mælt fyrir 350.000 kr. lágmarksframfærslu skatta- og skerðingalaust. Það er ekki bara að því sé algerlega hafnað og sópað út af borðinu, það er ekki einu sinni hlustað á það hvernig við viljum fjármagna það, vegna þess að við erum ekki að biðja um aukið fjármagn til þess, alls ekki. Við viljum bara reyna að byggja brú þannig að það sé ein þjóð sem búi í landinu, þannig að á öðrum bakkanum sitji ekki þeir sem þurfa að þiggja mylsnuna sem fellur af allsnægtaborði ríkisbubbanna. Það er ekkert annað sem við biðjum um.

Virðulegi forseti. Kæra þjóð. Það eru tvö mál vonandi að koma inn til afgreiðslu fljótlega, annað er um hagsmunafulltrúa fyrir aldraða og hitt er um leiðsöguhunda fyrir blinda og sjónskerta. Ég hef fulla trú á því að það sé eiginlega ekki hægt annað, alveg sama hvernig pólitíkin er í rauninni, en að taka utan um slík mál.

Í stað þess að segja gleðilegt sumar þá segi ég: Ég ætla að vona að þið getið öll, kæru landar mínir, átt sem ánægjulegast sumar. Því að ég veit að það eru mjög margir sem fá ekkert sumarfrí og geta ekki gert sér neinn dagamun af því að þeir hafa ekki efni á því.