145. löggjafarþing — 109. fundur,  10. maí 2016.

málefni ferðaþjónustunnar.

[13:45]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Stjórnstöð ferðamála var sett á laggirnar með samkomulagi ríkisins við sveitarfélögin í landinu og greinina sjálfa til að vera þar sem samstarfs- og samhæfingarvettvangur, kostaður til helminga af ríkinu og greininni sjálfri. Það er rangt sem fram kemur í máli málshefjanda, að þarna sé verið að auka báknið. Þarna er þvert á móti verið að tryggja betri samhæfingu og betra samstarf aðila innan þessarar stórkostlegu atvinnugreinar þar sem snertifletirnir eru óendanlegir.

Ef það er eitthvað sem ég hefði viljað vita þegar ég fór af stað með náttúrupassann er það einmitt það hversu margir þessir snertifletir væru og að ég væri komin með þennan vettvang sem við erum komin núna með til að stilla saman strengi í þessum málum.

Ég nefni það málefni sem við erum að fara að ræða á eftir í sérstakri umræðu, öryggi ferðamanna. Það heyrir undir fjölmörg ráðuneyti og það er þannig með þessa atvinnugrein að aldrei verður náð utan um þetta verkefni án þess að menn stilli saman strengi og sitji við sama borð.

Þingmaðurinn spyr hvort árangur hafi náðst af starfi stjórnstöðvarinnar. Já, til að mynda hvað varðar öryggismálin hefur verið unnið þétt að tillögum sem nú eru að fara í framkvæmd. Við erum búin að setja af stað öll þau verkefni sem listuð voru sem forgangsverkefni í Vegvísi í ferðaþjónustu. Það er rétt að Hörður Þórhallsson sem tók að sér til sex mánaða að setja þetta starf á laggirnar mun ekki sækjast eftir að vera þar áfram þar sem hann hverfur til annarra starfa. Starfið verður auglýst síðar í vikunni og á ég von á að umsækjendur verði fjölmargir enda um mjög spennandi starf að ræða.