149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:12]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef eignast sögur nokkurra orkufyrirtækja á bók. Þessar bækur veita gríðarlega mikla innsýn í þróun þeirra samfélaga þar sem þessi fyrirtæki hafa verið byggð upp og starfað og leiða manni fyrir sjónir hversu rík tengsl eru á milli velmegunar, atvinnuuppbyggingar og orkuframleiðslunnar. Þau tengsl ættu einmitt að undirstrika mikilvægi þess að þessi félagslegi þáttur geti áfram verið til staðar.

En hv. þingmaður spyr: Hvers vegna mótmæltu menn ekki? Ja, eins og sjá mátti á þeirri grein sem ég las upp úr áðan voru greinilega dæmi um að menn mótmæltu og spáðu jafnvel alveg hárrétt fyrir um hvers væri að vænta. En þá, eins og nú, virðist vera að þrýstingur frá Evrópusambandinu, sem utanríkisráðherra þess tíma lét greinilega fara illa með sig, hafi á endanum orðið þessum mótmælum og viðvörunum yfirsterkari. Við skulum vona að það gerist ekki aftur.