151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

skerðingar í almannatryggingakerfinu.

[13:19]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Fyrir skömmu kom út skýrsla um kjör lífeyrisþega sem Stefán Ólafsson og Stefán Andri Stefánsson unnu í samstarfi við Eddu – rannsóknasetur við Háskóla Íslands fyrir stéttarfélagið Eflingu. Skýrslan dregur fram með skýrum hætti áhrif skerðinga á almannatryggingakerfið. Af hverjum 100.000 kr. í viðbót af tekjum frá lífeyrissjóði fá lífeyrisþegar að jafnaði um 26.700 kr. í sinn hlut en ríkið fær í skatta og skerðingar samanlagt um 73.000 kr. Almennt hefur skattbyrði lífeyrisþega, ekki síst lágtekjufólks, stórlega hækkað. Óskertur lífeyrir almannatrygginga dugar ekki lengur fyrir lágmarksframfærslukostnaði einhleyps lífeyrisþega á höfuðborgarsvæðinu.

Virðulegur forseti. Hæstv. fjármálaráðherra sagði orðrétt, með leyfi forseta:

„Við höfum hækkað um næstum því helming stuðning úr almannatryggingakerfinu á undanförnum tæpum áratug. […] Við höfum aldrei áður varið jafn háum fjárhæðum í þessa málaflokka.

Ég tel að það sé full ástæða fyrir okkur til að vera mjög stolt af því gríðarlega öfluga félagslega öryggisneti sem almannatryggingar á Íslandi eru.“

Ef settar eru 1.000 kr. í keðjuverkandi skerðingarkerfið þá renna þær í gegnum vasa öryrkja og eldri fólks og um 750 kr. af þeim fara beint aftur í ríkissjóð eða meira, allt upp í 100%. Það eina sem er eftir af hverjum 4 kr. er í mesta lagi 1 kr. í vasa þeirra verst settu ef það fólk er svo heppið.

Ég er ekki að tala um hálaunafólk, ég er að tala um fólk sem er með 400.000–500.000 kr. í mánaðarlaun, 200.000–250.000 kr. útborgaðar úr lífeyrissjóði og það skilar kannski 50.000–60.000 kr. til þeirra, jafnvel minna, jafnvel ekki neinu. Finnst hæstv. fjármálaráðherra þetta í lagi, að skerðingarnar séu í lagi, (Forseti hringir.) að 1 kr. af hverjum 4 skili sér í vasa þeirra sem þurfa á því að halda?