151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

auðlindaákvæði stjórnarskrárinnar.

[13:41]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég er ekkert móðguð við hv. þingmann, honum má finnast það sem honum vill, mér þykir það bara heldur leitt og þá er það bara þannig. Ég fór yfir að eðli ólíkra auðlinda er töluvert ólíkt og það er ástæðan fyrir því að mjög fáar þjóðir hafa sett slík ákvæði í stjórnarskrá, vegna þess að það er erfitt að ná utan um auðlindanýtingu með heildstæðum hætti. Þegar við skoðum til að mynda hvað aðrar þjóðir hafa gert þá kjósa þær að fara aðrar leiðir en við höfum gert með því að setja fram sérstakt auðlindaákvæði, m.a. vegna þess að þegar við erum að tala um auðlindanýtingu á landi, svo dæmi sé tekið, þá er það kannski ekki endilega nýting til tiltekins tíma. Við erum með dæmi um það að land sé leigt út til 99 ára í senn. Við erum líka með dæmi um ótímabundna leigusamninga á landi. Um þetta er fjallað í greinargerðinni. Það er ástæðan fyrir því að ég taldi mikilvægt að grundvallaratriðin væru undirstrikuð í þessu ákvæði en ekki að við værum að festa okkur í tiltekna auðlind í auðlindaákvæði stjórnarskrárinnar. (Forseti hringir.) Þetta er líklega ástæðan fyrir því að það hefur reynst erfitt að ná utan um þetta og ástæðan fyrir því að aðrar þjóðir hafa farið aðrar leiðir þegar fjallað er um auðlindir í stjórnarskrá þeirra.