151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

atvinnuleysistryggingar og greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs.

775. mál
[16:01]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að það skipti máli þegar við erum að ræða þessi mál að við gerum upp við okkur hvort við séum að tala um kerfið eins og við viljum sjá það til framtíðar eða kerfi sem gæti tekið á þeim vanda sem er akkúrat í dag. Ég skil alveg hvað þingmaðurinn er að fara með því að segja að það geti ekki verið æskilegt að einhver hangi fastur á atvinnuleysisskrá að eilífu vegna þess að hið fullkomna starf dúkki ekki upp. En við erum að tala um úrræði vegna kórónuveirufaraldursins. Efnahagsleg áhrif af faraldrinum verða vonandi um garð gengin innan skamms. Ég skrifaði eftir þingmanninum að það að hafa vinnu skipti meira máli en að fá rétta vinnu, þ.e. ef það væri ómögulegt að fá rétta vinnu. En eigum við endilega að gefa okkur í dag, þegar við erum að rísa upp úr ástandinu eftir Covid, að rétta vinnan sé ómöguleg í nánustu framtíð? Það er spurning hvort það séu gild sjónarmið, á þessum tímum þegar atvinnuleysi er mikið en vonandi mjög tímabundið, að losa aðeins um reglurnar þannig að við séum ekki að ýta fólki inn í sama þrönga farveg og er kannski eðlilegt að sé í venjulegu árferði.