141. löggjafarþing — 109. fundur,  22. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[13:08]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst þetta ákvæði vera allt of marglyttukennt. Það er of laust og erfitt að henda reiður á því, ekki síst vegna þess að það á ekkert að vera og er ekki hægt að skuldbinda næsta þing til að hnýta upp eitthvað sem nú er ákveðið og er vanbúið. Það verður að taka málið upp aftur. Ég er sannfærður um að það er vilji flestra stjórnmálaflokka að ljúka þessu verkefni á stuttum tíma.

Það er hins vegar mín skoðun að ef það næðist að ljúka stjórnarskrársmíðinni á einu ári ætti ekki að kjósa um hana fyrr en í þarnæstu kosningum, kosningunum á eftir, ekki um leið. Við getum ekki verið að eyða tímanum í endalausar kosningar og slagsmál um hluti sem við ættum að vera sammála um og við getum ekki skilað stjórnarskránni fyrr en við erum sammála. Þetta er mín skoðun og ég held að breytingarnar verði að vera í einu lagi. Það er grundvallaratriði af minni hálfu að þær verði í einu lagi.

Ég kom víða við í ræðunni. Ég hef borið saman vinnubrögð sem voru ótrúleg í samfélaginu og hafa valdið svo miklum erfiðleikum, leiðindum, þreytu, uppgjöf og vonleysi. Því verðum við að snúa við. Það er gott að minnast 6. rímu Odds sterka eftir Örn Arnarson, Vantraustsræðu Odds sterka. Þar segir meðal annars, með leyfi forseta:

Vandasamt er sjómannsfag,

sigla og stýra nótt og dag.

Þeir sem stjórna þjóðarhag

þekkja varla áralag.

Eftir mikið þras og þóf

þingið upp til valda hóf

menn sem hafa ei pungapróf,

piltar, það er forsmán gróf.