144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

dagskrá næsta fundar.

[10:32]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ræða hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, varaformanns þingflokks Sjálfstæðisflokksins, áðan sýndi auðvitað að málið er ekki tækt til að vera á dagskrá. Málið er búið að vera hér til umræðu í viku og hv. þingmaður heldur að það eigi eftir að ganga til nefndar. Það er nákvæmlega það sem við höfum verið að kalla eftir, það er að málið gangi til nefndar, því verði breytt eins og meiri hlutinn hefur boðað að því verði breytt og það komi hingað fullbúið inn til umræðu, tækt til efnislegrar umræðu.

Varðandi derringinn í hæstv. fjármálaráðherra um að það sé spurning hvort Alþingi Íslendinga ráði við að láta meiri hlutann koma málum í gegn þá er það ósköp einfaldlega þannig að meiri hlutinn hefur ekki sjálfkrafa rétt til þess að koma öllum málum í gegn ef þau brjóta gegn lögum og ef þau brjóta gegn þingsköpum. Hér er verið að leggja (Gripið fram í.) mál fram með þeim hætti að þau standast ekki skýr lagaákvæði og við þær aðstæður (Forseti hringir.) er það fráleitt að meiri hlutinn eigi að hafa hér aðstöðu til þess að böggla málum og böðla (Forseti hringir.) áfram án þess að eðlilegs framgangsmáta sé gætt.