149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:43]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Já, orðið sem kemur upp í huga mér þegar ég hugsa um þessa framgöngu, er ofríki. Hér er verið að beita ofríki. Einhverjir hafa haft það á orði að hér sé verið að beita málþófi, en samkvæmt mínum skilningi er það svo að í málþófi er máli haldið í gíslingu á þann hátt að ekki er raunverulega boðið upp á samtal, ekki er boðið upp á lausnir, ekki er boðið upp á aðrar leiðir.

Hér hafa þingmenn Miðflokksins boðið upp á aðrar leiðir. Við höfum boðið upp á samræðulistina sem hefur stundum verið talin list stjórnmálanna. Við höfum boðið upp á þá leið að málinu verði frestað og það gaumgæft frekar. Við höfum boðið upp á þá leið að hin leiðin verði farin, þ.e. að málinu verði vísað aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar, eins og lög og reglur og alþjóðlegir samningar gera ráð fyrir. Og við höfum boðið upp á það að málið verði tekið af dagskrá um stund. En allt kemur fyrir ekki. En ekki er hlustað á neitt. Það á að keyra þetta í gegn sama hvað tautar og raular í þeirri veiku von að hér gefumst við upp, sem er nokkuð fyrirséð að verður ekki. Við munum halda því til streitu að bjóða stjórnvöldum upp í þann dans að eiga við okkur uppbyggilegt samtal um þetta mál (Forseti hringir.) og munum halda því áfram þar til svo má verða.