151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

atvinnuleysistryggingar og greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs.

775. mál
[15:14]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir allt sem hv. þingmaður sagði hér á undan og líka undir vangavelturnar um hvað hafi skort. Ég ítreka það að ég held að það hafi ekki endilega skort vilja, ég held miklu frekar að það hafi skort yfirsýn og þegar yfirsýnina skortir þá vantar vilja til þess að leita eftir samstarfi við aðra, til að fá meiri yfirsýn, hugsa um breiddina, átta sig á að það skaðar ekki að fá fleiri hendur á dekk þótt það kosti að þakklætið fari á fleiri herðar en færri. Oft og tíðum snýst þetta um það, við þekkjum það í pólitíkinni og ekki síst þegar kosningar eru í nánd, þá passa ráðherrar sig að vera með sína fundi og sínar kynningar í aðdraganda kosninga. Það er gömul saga og ný. En engu að síður, í þessu máli hefði verið hægt að koma í veg fyrir það að ákveðnir hópar hefðu verið skildir eftir ef við hefðum tekið þessi stóru skref strax.

Hitt er síðan málið sem hv. þingmaður benti á og varðar það að ríkið setti mikið fjármagn í ríkisreknu skólana í bullandi samkeppni við sjálfstætt starfandi einstaklinga sem halda úti námskeiðum, konur sem hafa lifibrauð sitt af því að halda úti námskeiðum tímabundið, lítil fyrirtæki o.s.frv. Það er mjög mikið umhugsunarefni að það hafi verið gert en það kemur ekki lengur á óvart. Þar er hins vegar vilji til að láta ríkið frekar njóta vafans, láta ríkið frekar fara í þessi mál heldur en að hugsa um fjölbreytnina, hugsa um samkeppni. Samkeppnin er svo mikill drifkraftur til góðra verka, drifkraftur að því að fá nýjar hugmyndir og til að bæta sig í samfélaginu, bæði fyrir ríki og einkaaðila. Þannig að já, þessi ríkisstjórn, eins og við sjáum bara í heilbrigðismálunum, það var engin tilviljun að hún setti aukið fjármagn í ríkisrekna starfsemi en skildi eftir hina einkareknu.