151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

atvinnuleysistryggingar og greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs.

775. mál
[16:11]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Þarna missti ég af. Ég ætlaði að fara í andsvar við hv. þm. Þorstein Sæmundsson en við bara njótum þess þá að eiga orðastað einhvers staðar á öðrum vettvangi, kannski hérna frammi á eftir. En við erum hér að fjalla um frumvarp til laga um atvinnuleysistryggingar og lög um greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs.

Mig langaði aðeins að víkja orðum mínum að þeirri stöðu sem núna er uppi. Auðvitað er nauðsynlegt að fara í framlengingu á þeim úrræðum sem eru til staðar nú þegar en það er ekki hægt annað en að koma hingað upp og hafa aðeins orð á þeirri hvimleiðu orðræðu sem hefur örlítið fengið að berast hér um sali er varðar það að atvinnuleitendur séu á einhvern hátt að misnota kerfið, að atvinnuleitendur séu ekki að bregðast við þegar atvinnuveitendur koma með fulla vasa af störfum og bjóða þau. Því miður hefur aðeins borið á þessari umræðu að undanförnu og ég verð að segja að ég fagna því þegar forstjóri Vinnumálastofnunar og aðrir sem gerst þekkja í þessum málum koma fram og greina frá raunveruleikanum eins og hann birtist þeim.

Það er jú svo að það vinnumarkaðsátak sem núna er í gangi, að hefja störf úti um allt samfélag, hefur skapað fjölmörg störf og er það auðvitað af hinu góða og heldur betur. En þetta er vinnumarkaðsátak þar sem vinnuveitandi fær stuðning úr okkar sameiginlegu sjóðum til að ráða fólk til starfa og þá þarf auðvitað að passa upp á að á sama tíma sé ekki sami aðili, sama fyrirtæki, að segja upp starfsfólki til að geta ráðið starfsfólk að nýju með stuðningi frá hinu opinbera. Í morgun mættu fyrir hv. velferðarnefnd forstjóri Vinnumálastofnunar og starfsmaður og greindu okkur aðeins frá því hvernig staðan er í þessu mikilvæga verkefni, 9.000 störf eru undir og hver og einn atvinnuleitandi er mögulega að sækja um mörg störf í einu.

Þú sækir um störf, umsóknarfrestur rennur út eftir hálfan mánuð eða tíu daga eða eitthvað slíkt og þú ert með alla öngla úti, fiskar á ólíkum miðum af því að sem atvinnuleitandi er maður mögulega að sækja um draumastarfið á einum stað, aðeins minna draumastarf á öðrum stað og svo kannski tvö, þrjú önnur störf sem maður fer í ef það býðst en það eru ekki draumastörfin. Af hverju eru þau ekki draumastörfin? Jú, mögulega vegna þess að þau henta hvorki menntun fólks né fyrri starfsreynslu. Vinnutíminn getur verið óheppilegur vegna fjölskylduaðstæðna eða annarra aðstæðna, vinnustaðurinn, fjarlægð frá heimili, kann að vera óheppilegur o.s.frv. En það var mjög gott að heyra skýra afstöðu frá gestum nefndarinnar varðandi það að þau verða ekki vör við að fólk sé að neita atvinnu til þess eins að geta áfram verið á atvinnuleysisbótum. Þau segja einfaldlega að svo sé ekki, að það séu innan við 2% sem séu beinlínis að neita þeirri vinnu sem býðst.

Hins vegar er það auðvitað þannig með þau fjölmörgu störf sem eru undir í þessu átaksverkefni að þetta tekur allt eðlilegan tíma. Hvers vegna? Jú, vegna þess að sá sem starfið hefur, vinnuveitandinn, kemur inn til Vinnumálastofnunar, mögulega með einhverja pappíra upp á vasann um að starf sé í boði, lætur vita hjá Vinnumálastofnun, Vinnumálastofnun þarf þá að fara yfir pappíra og ráðningarsamning og þess háttar af því vinnuveitandinn er kominn með þetta í hendur. En þá kemur upp að það á eftir að fylla út ýmsar upplýsingar, það á eftir að fylla út upplýsingar um mögulegan starfsmann en líka einfaldlega upplýsingar um kaup og kjör eða upplýsingar um vinnutíma eða upplýsingar um annað. Þetta tefur auðvitað ferlið. Það tefur ferlið þegar gögn eru ófullnægjandi þegar þau koma til Vinnumálastofnunar og þegar um er að ræða 9.000 störf þá er augljóst að það þarf að vanda mjög til verka.

Á fundi nefndarinnar kom fram að þetta væri ekki svo einfalt að það væri bara hægt að taka þessi störf upp úr kassanum og dreifa þeim yfir mannskapinn. Það þarf jú að tryggja að vinnuveitendur séu ekki að stunda undirboð, að ekki sé verið að greiða undir lágmarkslaunum, að ekki sé verið að krefjast ómældrar vinnu fyrir ónóga þóknun eða að aðstæður séu á einhvern hátt ekki í samræmi við lög og reglur á vinnumarkaði. Þetta er auðvitað eitthvað sem við getum ekki gefið neinn afslátt af þrátt fyrir að það sé mikið atvinnuleysi. Hvers vegna getum við ekki gert það? Jú, vegna þess að það myndi hafa veruleg ruðningsáhrif á allan vinnumarkaðinn á Íslandi. Ef það myndi leyfast núna að gefa einhvern afslátt af því að borga fólki ekki undir lágmarkslaunum fyrir tiltekna vinnu þá værum við komin í einhvers konar spíral niður allt kerfið og út um allt kerfið. Þá værum við búin að riðla samkeppni á markaði milli sambærilegra fyrirtækja og búa til einn allsherjarhvata um samfélagið allt að hefja nú magnhópuppsagnir til þess að ná niður launakostnaði. Við sjáum það öll að þetta gengur auðvitað alls ekki.

Það er út af þessu sem þetta ferli allt er að taka langan tíma, er að tefja og þrátt fyrir góðan vilja alls þess starfsfólks sem er þarna inni. Það er, eins og áður sagði, auðvitað að leggja sig allt fram við að afgreiða hratt og vel þær umsóknir sem eru þarna inni og para saman laus störf við laust vinnuafl en líka að tryggja að ekki sé verið að svína á fólki. Og ég verð að segja að ég er býsna ánægð með að Vinnumálastofnun sé að vanda sig þetta mikið í þessum störfum af því að í ástandi eins og núna er, þegar svona mikið atvinnuleysi er, fordæmalaust atvinnuleysi, við höfum ekki séð annað eins hér í langan tíma, þá er mikil hætta á að hvati myndist til að bjóða fólki sem er í neyð, hefur mögulega verið atvinnulaust lengi, laun sem í venjulegu árferði væru ekki boðin fyrir sambærileg störf.

Það kom líka fram í nefndinni að ekki væru margir að hafna vinnu vegna fjarlægðar frá heimili. Þó hlýtur það að teljast eðlilegt, t.d. ef um er að ræða starf til skemmri tíma, starf þar sem viðkomandi þarf að útvega sér húsnæði, starf þar sem viðkomandi þarf að flytjast landshorna á milli, mögulega með fjölskyldu sína, í óvissu, í þannig aðstæður að óvíst er um hversu lengi starfið býðst, hversu mikla vinnu er að fá, hvort um er að ræða mjög sundurslitinn dag eins og við heyrðum af að væri mögulega verið að bjóða upp á hér í einhverjum störfum þar sem boðið er upp á það að koma inn og vinna í tvo tíma og eiga svo að fara aftur heim í tvo tíma og koma svo aftur á vakt í tvo tíma en fá ekki borgað fyrir tímann á milli og vera í því meira og minna allan sólarhringinn að detta inn í tvo tíma og þrjá tíma í senn. En auðvitað tekur tíma að keyra á milli vinnustaðar og heimilis, fyrir utan það að fólk sem hefur fyrir fjölskyldu að sjá og þarf að annast börnin sín getur illa séð um börn og heimili þegar dagurinn er slitinn svona mikið í sundur.

Ég held að við þurfum öll að sýna þessu ástandi svolítinn skilning núna. Við vorum ekki endilega við því búin að ferðaþjónustan myndi taka svona hressilega við sér fljótt eftir þetta tímabil, þennan heimsfaraldur. Og þó að við viljum gjarnan koma öllum í störf strax og viljum koma ferðaþjónustunni í blússandi gang strax er það auðvitað líka staðreynd málsins að ferðaþjónustan var að miklu leyti til drifin áfram af erlendu vinnuafli, af erlendum einstaklingum sem komu hingað til lengri eða skemmri tíma til starfa. Það fólk býr auðvitað sumt hér enn þá og tók ákvörðun um að búa hér til lengri tíma en margir eru farnir aftur. Svo er það auðvitað líka þannig að reglurnar og okkar sameiginlegu reglur við EES-svæðið heimila að maður fari og reyni að fá vinnu annars staðar en í því landi sem maður hefur búið að undanförnu. Og þetta á við hvort sem um er að ræða íslenska ríkisborgara eða erlenda. Við sem erum íslenskir ríkisborgarar megum líka gera þetta, við megum líka freista þess að fara út fyrir Ísland og leita að störfum einhvers staðar annars staðar í Evrópu, verandi á atvinnuleysisskrá, í allt að þrjá mánuði. Og þegar það kemur skyndilega símtal á mánudegi og þú ert í atvinnuleit í öðru ríki, mögulega í umsóknarferli í öðru ríki þar sem þú vonast til að verða útvalin, getur verið býsna erfitt að hlaupa frá því borði til að festa sig annars staðar. Þannig að það eitt og sér leiðir ekki til þess að hafna vinnunni en þó verður það merkt þannig hjá vinnuveitandanum að maður hafir hafnað vinnunni. En aðstæður eru bara þannig að þú ert að bíða eftir svari og hefur mögulega farið í gegnum einhver tvö verkefni eða þrjú, einhver próf, farið í atvinnuviðtöl og þess háttar, allt á einum og sama vinnustaðnum, ert komin í gegnum mikla síu og ferð nú varla að henda því í burtu fyrir eitthvert starf sem er kannski miklu minna spennandi en það sem þú ert þó enn þá í röðinni að sækja um. Þannig að það eru ýmsar ástæður fyrir því að fólk hleypur ekki til þegar tiltekið starf býðst, bara vegna aðstæðna og það geta verið fjölmargar aðstæður.

Það er ekki alltaf það versta uppi. Almenningur er ekki að reyna að svína á kerfinu, bara alls ekki. Við verðum að horfa á þetta sameiginlega kerfi okkar sem stuðning við þá sem þurfa á því að halda og við eigum að höndla með og umgangast þetta kerfi okkar þannig að það komi einmitt þeim til aðstoðar sem þurfa á því að halda og reyna að draga úr því að maka tortryggni á allt og alla sem þurfa tímabundið að njóta þessa stuðnings úr okkar sameiginlega kerfi.