150. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2019.

bótakröfur í Guðmundar- og Geirfinnsmáli.

[10:43]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég hygg að um það séum við hv. þingmaður sammála. Aðalatriðið er að þetta mál fái farsælar lyktir. Hv. þingmaður spyr: Af hverju kem ég núna með frumvarp? Ég hefði kosið að samkomulag hefði legið fyrir við a.m.k. fleiri aðila áður en frumvarp hefði verið lagt fram. Í ágúst sl. fól ég settum ríkislögmanni að halda áfram að leita samkomulags við aðila málsins en það liggur ekki fyrir. Ég taldi hins vegar rétt í ljósi umræðunnar nú að það væri hreinlegast og heiðarlegast, í ljósi þess líka að margt virðist vera á huldu í opinberri umræðu, að Alþingi fengi bara frumvarp þar sem málið væri rakið frá upphafi til enda og Alþingi gæti þá tekið afstöðu til þess sem þar er lagt til samhliða því að haldið verði áfram sáttaumleitan.

Það fannst mér hreinlegasta leiðin í þessu máli og þá leggjum við öll spil á borðið um þann grundvöll sem sáttanefndin vann samkvæmt. Það er ástæðan fyrir því að ég kem með þetta núna.