144. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2014.

störf þingsins.

[13:36]
Horfa

Sigrún Magnúsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson veit slær hjarta mitt með bændum og þeirri frábæru vöru sem þeir framleiða í takt við hreinleika íslenskrar náttúru, enda er svo komið að íslensku fæðutegundirnar, kjötið, mjólkin og fiskurinn í sjónum, eru taldar heilnæmustu matvörur heimsins. Síðasta sumar gáfu tvær alþjóðlegar stofnanir út að Ísland skoraði hærra en Ítalía og Grikkland.

Ég vil mjög gjarnan stuðla að því að Íslendingar geri sér grein fyrir þessu og njóti þessara gæða.

Fjárlagafrumvarp er veigamesta frumvarpið sem lagt er fram á Alþingi. Oft hefur tekjuhlið þess ekki verið lögð fram fyrr en síðla nóvember. Núna höfum við tæpa þrjá mánuði til skoðunar á frumvarpinu. Við framsóknarmenn munum sannarlega standa vörð um hag heimilanna. Á það getur þingmaðurinn stólað.

Fyrirvari okkar snerist eingöngu um að við vildum ekki tefja framlagningu þessa frumvarps en höfðum að mati okkar margra innan þingflokksins ekki haft nægjanlegan tíma til að reikna og skoða mismunandi valkosti og dæmi þannig að ef eitthvað kæmi í ljós vildum við eflaust gera breytingar á. Við viljum nefnilega vanda okkur, kæri þingmaður.

Eins og ég segi hefur þingnefndum aldrei gefist lengri tími til þinglegrar meðferðar á fjárlagafrumvarpi og tekjuhlið þess. Og var ekki Alþingi fært einmitt fram til þess að hafa betri tíma í fjárlög?

Ég vil benda á að það hjálpar matvælaframleiðendum eins og bændum að lækka efra þrepið, bæði varðandi tækjakaup og varahluti. Varahlutir í bíla, dráttarvélar og fleira eru oft þungur baggi og stendur framvindu þeirra fyrir þrifum. Þá bendi ég á afnám vörugjalda, lækkun vísitölu og þar með lækkun skulda, og lægri verðbólgu höfum við ekki haft í tíu ár. Allt þetta hjálpar.

Aðalatriðið hlýtur að vera að meta heildaráhrif frumvarpsins (Forseti hringir.) á heimilin og fólkið í landinu. Við verðum að standa vaktina og gæta þess að tekjulægstu hóparnir beri ekki skarðan hlut frá frumvarpinu.