150. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2019.

störf sáttanefndar í Guðmundar- og Geirfinnsmáli.

[10:44]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Hv. formaður Samfylkingarinnar rakti málið ágætlega á undan mér og ætla ég þar af leiðandi ekki að gera það aftur en ég ætla að spyrja út í það sama. Mér þykir áhugavert að hlusta á svör hæstv. forsætisráðherra í þessu máli og gott að heyra að hún hyggst ljúka því á sanngjarnan hátt og sækist eftir því að Guðjón Skarphéðinsson fái bætur.

Þá spyr ég: Til hvers var þessi sáttanefnd sem virðist hafa verið skipuð algjörlega án umboðs? Voru ekki mistök þar á ferð? Hvers vegna var ekki sóst eftir því að finna einhverja sátt í þessari sáttanefnd? Hvers vegna þarf að búa til annað ferli um að skapa sátt þegar sett hafði verið í gang ferli sem átti að komast að þeirri niðurstöðu?

Mig langar líka til að spyrja, þar sem þessi greinargerð ríkislögmanns lá inni í ráðuneytinu í tvær vikur, hvort hæstv. ráðherra hafi lesið hana og hvort hæstv. forsætisráðherra sé sammála greinargerðinni, þ.e. sammála því að Guðjón beri sjálfur ábyrgð á því að hann var sakfelldur eins og kemur fram. Ef hæstv. forsætisráðherra er ekki sammála þessari greinargerð, hvers vegna lagði hún blessun sína yfir hana? Er ekki tilefni til að biðja aftur afsökunar á því að ríkislögmaður hafi komið fram á þennan hátt? Í umboði hvers kemur hann fram á þennan hátt?

Þetta eru margar spurningar, mögulega of margar, en ég ítreka spurninguna um hvort hæstv. forsætisráðherra hafi verið sammála þessari greinargerð.