150. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2019.

störf sáttanefndar í Guðmundar- og Geirfinnsmáli.

[10:46]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Fyrst spyr hv. þingmaður um umboð sáttanefndar. Umboð sáttanefndar var alveg skýrt. Hún var skipuð fulltrúum forsætisráðherra, fjármálaráðherra og dómsmálaráðherra. Verkefni hennar fólst í því að gera tillögu um hugsanlega greiðslu miska- og skaðabóta til aðila málsins og aðstandenda sem ekki eiga lögvarinn rétt, eftir atvikum í samræmi við almennar reglur skaðabótaréttar, og gera tillögur að hugsanlegri lagasetningu í ljósi þessara ólíku aðstæðna afkomenda og annarra. Umboðið var skýrt. En hins vegar er það alveg rétt, sem ég hef ítrekað í þessum ræðustól, að þetta verkefni tók mjög langan tíma og lengri tíma en ég hefði kosið. En umboðið lá fyrir og nefndin var komin alllangt með þetta mál síðasta vor þegar upp úr slitnaði og hún skilaði í raun til mín umboði sínu, skilagrein, og taldi að hún kæmist ekki lengra með málið. En það frumvarp sem ég hyggst leggja fyrir ríkisstjórn á morgun byggir alfarið á vinnu sáttanefndarinnar á sínum tíma. Þetta liggur algjörlega fyrir.

Stóra málið í þessu er að hér var fólk órétti beitt og frelsissvipt af hálfu ríkisins. Þess vegna skipaði ég sáttanefndina og þess vegna var minn vilji til þess að reyna að ná einhvers konar samkomulagi um sanngjarna lúkningu málsins. Þegar síðan einn aðili máls fer í mál fer málið í þann farveg að settur ríkislögmaður grípur til varna fyrir ríkið og vissulega er hefðin sú að gripið er til ýtrustu varna. Það sem ég kom ekki nægjanlega skýrt að í svari mínu við hv. þm. Loga Einarsson er að vinnulagið hjá Stjórnarráðinu hefur verið það að þegar ríkislögmaður grípur til varna, þó að hann sé fulltrúi framkvæmdarvaldsins, hefur hann í raun og veru mikið sjálfdæmi um það hvernig greinargerð er háttað. Ég held að þetta vinnulag krefjist endurskoðunar við (Forseti hringir.) því að fyrir liggur að þessi greinargerð lá í þremur ráðuneytum en var ekki kynnt neinum af þeim ráðherrum sem þau fara með sérstaklega. (Forseti hringir.) Það vinnulag krefst auðvitað endurskoðunar.