Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 11. fundur,  10. okt. 2022.

orkuþörf og loftslagsmarkmið.

[15:32]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Hér er spurt um tiltölulega afmarkaðan þátt umræðunnar, þ.e. hvort til umræðu sé að annaðhvort segja upp eða draga úr orkuafhendingu til stóriðju. Ég vil nú meina að þegar menn taka svona til orða eins og hér var vísað til, þ.e. í umræðu um þessi mál, þá megi líka alveg sjá fyrir sér þann möguleika að samningar renni út og þá sé ekki hægt að endurnýja, þannig að það gæti gerst einhvern tímann í framtíðinni. En það er hvergi verið að ræða um þessa hluti í stjórnkerfinu og ég get alveg sagt fyrir mitt leyti að ég held að við höfum aldrei upplifað aðra tíma þar sem jafn mikill ávinningur var af viðskiptum við orkufrekan iðnað í landinu eins og á við einmitt í dag, aldrei áður jafn mikil afkoma, bæði hjá framleiðendunum og orkusala sem er mjög jákvætt mál fyrir hagkerfið okkar.

Það er hins vegar margt hægt að segja um umræðuna. Hérna voru fullyrðingar um getuleysi þessarar stjórnar til að þoka málum áfram. En það er samt sem áður staðreynd að rammaáætlun var kláruð í vor í fyrsta skipti frá árinu 2013 og ekki voru þessir þrír flokkar í ríkisstjórn frá 2013 heldur einmitt ýmis önnur stjórnarmynstur, m.a. á tímabili Viðreisn í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokkurinn þar áður og við lukum ekki við rammaáætlun á þeim tíma. En við höfum þokað því máli áfram og það held ég að hafi verið gríðarlega mikilvægur áfangi. Við höfum líka tjáð okkur um það í stjórnarsáttmála að það skipti verulega miklu máli að þétta flutningskerfi raforku í landinu vegna þess að strönduð orka í kerfinu okkar er á margan hátt töpuð orka og kallar fram þörfina fyrir fleiri virkjanir sem er algjör synd ef við eigum orku en erum bara ekki að koma henni rétta leið. Það eru margar stíflur í kerfinu hjá okkur sömuleiðis. Við þekkjum umræðuna um Suðurnesin í því sambandi (Forseti hringir.) og öryggismálin hafa verið í sérstökum brennidepli út af óveðri undanfarin ár. Þetta eru mál (Forseti hringir.) þar sem við höfum náð áföngum og framþróun og síðan eru auðvitað orkuskiptin (Forseti hringir.) komin inn sem algerlega ný vídd á undanförnum árum inn í umræðu um orkumál.