154. löggjafarþing — 11. fundur,  9. okt. 2023.

rannsóknarskýrsla um heimilin vegna bankahrunsins.

[15:33]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Virðulegi forseti. Föstudaginn 6. október voru liðin nákvæmlega 15 ár frá bankaráninu mikla. 15.000 fjölskyldur sem misstu heimili sín í hruninu bíða enn eftir réttlæti og þessi heimili mega aldrei gleymast. Ég hef persónulega fengið að heyra ótal frásagnir af því hvernig brotið var á fólki með þegjandi samþykki stjórnvalda og hef fellt tár yfir mörgum þeirra því að á öllum þessum heimilum bjó fólk, einstaklingar sem eiga það sameiginlegt að hafa verið hunsaðir af stjórnvöldum. Ekkert af þessu fólki hefur hlotið viðurkenningu á því hvernig brotið var á þeim. Öll hafa þau þurft að bera harm sinn í hljóði og þurft að skammast sín fyrir að vera fórnarlömb fjárhagslegs ofbeldis. Öll voru þau auðmýkt og mörg þeirra hafa aldrei borið sitt barr síðan. Enn þá hafa brotin gegn þeim ekki verið viðurkennd og engin rannsóknarskýrsla Alþingis, sem við höfum kallað rannsóknarskýrslu heimilanna, verið gerð um hvernig brotið var á öllu þessu fólki með markvissum hætti, oftast af bönkunum sjálfum, en stjórnvöld, sýslumenn og dómarar tóku fullan þátt í þessum brotum og færðu bönkunum vopnin. Á þessum árum, líkt og nú, var fjármálakerfið í forgangi og varið með öllum ráðum, hvað sem það kostaði. 15.000 fjölskyldur voru metnar sem ásættanlegur fórnarkostnaður af þeim sem engu þurftu að fórna sjálfir.

Ég reyndi að leggja fram beiðni um rannsóknarskýrslu heimilanna á síðasta þingi en fyrir utan þingmenn Flokks fólksins voru einungis tveir þingmenn tilbúnir til að styðja hana, kannski af því að hér í þessum sal eru of margir, bæði flokkar og einstaklingar, sem áttu of mikinn þátt í þessum hörmungum, hvort sem það var með beinum hætti eða bara með því að líta til hliðar og leyfa þessu að viðgangast þrátt fyrir neyðarköllin, enda höfum við ekkert lært. Nákvæmlega það sama er að fara að gerast aftur enda hafa hvorki bankarnir, ríkisstjórn, sýslumenn né dómstólar þurft að horfast í augu við brot sín gagnvart öllum þessum þúsundum og því er ekkert því til fyrirstöðu að endurtaka leikinn. Fjárhagslegar afleiðingar hrunsins og eignatökunnar sem því fylgdi voru skelfilegar. En það var ekki bara stolið fjármunum og eignum af fólki heldur hreinlega lífinu sjálfu, heilsu fólks, (Forseti hringir.) framtíð þeirra og draumum.

Því spyr ég forsætisráðherra hvort hún sé tilbúin til að leggja fyrir ríkisstjórnina og svo þingið (Forseti hringir.) hvort ekki eigi að gera rannsóknarskýrslu Alþingis og veita þessum heimilum sem farið var svo illa með þá uppreisn æru sem þau eiga svo sannarlega skilið.