150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[12:58]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég kem hér upp vegna orða hv. þm. Jóns Þórs Ólafssonar um þetta frumvarp. Ég vil hvetja hv. þingmann til þess að kynna sér bæði frumvarpið og þær breytingartillögur sem meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar leggur til. Í 23. gr. frumvarpsins er fjallað um frestun á endurgreiðslu og þær undanþágur sem hægt er að fá til að fresta greiðslu. Meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar er að bæta þar í, þ.e. að auka svigrúmið til þess að fólk geti frestað endurgreiðslu ef það lendir í vandræðum eins og getur komið upp á lífsleiðinni. Ég bendi hv. þingmanni einnig á þær breytingar sem eru lagðar til við 20. gr., sem einmitt gera það að verkum að hægt verður að semja um gjaldfellingu hafi fólki ekki tekist að greiða upp fyrir 65 ára aldur. (Forseti hringir.) Það er því verið að koma mjög til móts við þá sem einhverra hluta vegna munu ekki geta borgað af lánum sínum.