154. löggjafarþing — 110. fundur,  13. maí 2024.

utanríkis- og alþjóðamál 2023.

1099. mál
[18:22]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Hver er uppskriftin að góðu samfélagi, allavega samkvæmt okkur hérna á norðurslóðum og Norðurlöndum? Það eru sterk og öflug mannréttindi, öflug vernd almennra borgara og einstaklinga í lýðræðissamfélagi. Hver er uppskriftin að því að eyða mannréttindum í lýðræðissamfélagi? Það er dálítið staðan sem við erum að glíma við í alþjóðastjórnmálum, í geópólitíkinni, með leyfi forseta, í dag. Staðan er einfaldlega sú að það er markvisst verið að grafa undan lýðræði og mannréttindum í hinum vestræna heimi þar sem þessi gildi eru hvað sterkust og það gengur illa að breiða þau út. Það ætti að vera okkur mikið áhyggjuefni. Einhverra hluta vegna er sá áróður mjög smitandi og hefur valdið þessari svokölluðu öfgahægribylgju í Evrópu á undanförnum árum. Ég vil þó ekki endilega kenna þetta við einhverja hægri stefnu, mér finnst það ekki sanngjarnt. Þetta er ákveðin öfgastefna og hvort hún fer til hægri eða vinstri eða hvert svo sem er mér slétt sama um, þetta nálgast einfaldlega ákveðinn fasisma og alræðishugmyndir um vald og hvar vald býr. Við skulum einfaldlega segja það á eins skýran hátt og hægt er, að að baki þessari áróðursherferð nokkurn veginn um gjörvallan heiminn eru þónokkrir en Rússland er þungamiðjan í þeim gjörningum. Sú upplýsingaóreiða sem hefur komið frá Rússlandi, er mjög vel staðfest að komi frá Rússlandi, varðar m.a. afskipti af kosningum, t.d. í Bandaríkjunum og í mörgum Evrópuríkjum og hvernig málið um Cambridge Analytica t.d. kom upp líka. Það eru til öfl sem vilja ekki mannréttindi og lýðræði. Rússland er stór leikmaður í þeirri fléttu.

Það hafa margir látið glepjast af þessari orðræðu, þessari pólitísku orðræðu sem Rússland hefur átt mikinn þátt í að búa til á undanförnum árum. Sú orðræða er mjög algeng innan þessarar hægriöfgastefnu. Við þurfum að finna eitthvað annað orð yfir þetta en öfgahægri, yfir þessa fasistabylgju í rauninni sem er að ganga gegn okkar vestrænu gildum. Við verðum að passa okkur á því að detta ekki í þá gildru sem er verið að setja upp. Það er þessi gildra þar sem er beinlínis verið að búa til aðstæður víðs vegar í heiminum með hernaðarbyltingum. Það eru þó nokkur lönd sunnanvert við Sahara í Afríku þar sem hefur verið gerð hernaðarbylting í rauninni gegn ákveðinni nýlendustefnu Frakka. Þar voru Wagner-hópurinn og arftaki Wagner-hópsins aðalaðilarnir í því að hjálpa uppreisnaraðilum þar til að komast til valda. Frakkar eru í rauninni í beinu stríði við Rússa þarna í Afríku. Víðar um heiminn, t.d. í Sýrlandi þar sem Rússar hafa verið að aðstoða stjórnvöld í Sýrlandi við að halda völdum og á fleiri stöðum er í rauninni verið að búa til þá, má segja, jákvæðu afleiðingu fyrir þessa aðila að búa til flóttafólk. Það er ekki flóttafólkinu að kenna hvaða aðstæður eru búnar til, það einfaldlega flýr þær aðstæður, skiljanlega. Þetta er hönnuð atburðarás, við skulum bara hafa það algerlega á hreinu. Það eru vissulega til tilfelli þar sem aðrar aðstæður valda þeim flóttamannavanda sem við erum að glíma við en það eru líka hannaðar aðstæður. Þær aðstæður eru hannaðar til þess að grafa undan mannréttindum og lýðræði af því að við þekkjum það bara út frá ákveðnum mannlegum gildum og samfélaginu hvernig við bregðumst oft við utanaðkomandi ógn. Það er mjög auðvelt að mata þá hræðslu sem upp kemur þegar það er flóttamannaástand. Það er á okkar ábyrgð að láta ekki glepjast af þeim hræðsluáróðri. Innflytjendamál eru flókin, þau eru erfið, þau eru áskorun og það er auðvelt að kenna flóttamönnum eða innflytjendum um vandann. Það er allt of auðvelt. En það er á sama tíma mjög varhugavert því að réttindin sem við notum og byggjum upp til þess að búa til gott lýðræðissamfélag — við gröfum undan þeim á sama tíma og við hallmælum innflytjendum, af því að það er „við og þau“ umræða. Þannig að við verðum að passa okkur.

Upplýsingaóreiðan er nefnilega líka hluti af stríðsátökum. Ísland er ekkert undanskilið þeirri áhættu og það er skipulögð dreifing ósanninda og áróðurs í stríðsrekstri sem hefur það markmið að skapa óreiðu og grafa undan tiltrú almennings á innviðum og stofnunum. Sitt sýnist hverjum auðvitað um það hvað er upplýsingaóreiða og hvað ekki. Það er endalaust verið að velta því fram og til baka og ásaka ýmsa saklausa aðila um upplýsingaóreiðu. En hún er þarna líka til staðar. Hinum megin frá fáum við oft varnir gegn þessari fölsku upplýsingaóreiðu, í rauninni bara með málefnalegri gagnrýni eða ekkert rosalega málefnalegri gagnrýni endilega sem er ásökuð um að vera falsfréttadreifing og er það í rauninni ekki tæknilega séð. Kannski ónákvæm umræða eða eitthvað því um líkt. En það að gagnrýna ranga umræðu sem upplýsingaóreiðu hjálpar einungis þeim sem eru í alvörunni að dreifa ósannindum og áróðri með það að markmiði að eyða mannréttindum og lýðræðissamfélagi. Þannig að það er rosalega mikið ábyrgðarhlutverk okkar að reyna að vanda okkur og vera nákvæm í því þegar við erum að kljást við þennan í rauninni beina stríðsrekstur þegar allt kemur til alls.

Það er merkilegt að slíkar árásir, tölvuárásir en líka árásir gegn skipulögðum lýðræðislegum kosningum, falla undir 5. gr. NATO-samkomulagsins. Það hefur svo sem verið brugðist við því á ákveðinn hátt en ekki kannski á eins afgerandi hátt og hægt væri að bregðast við. Ég er ekkert að mæla með því að það eigi að gera það, það er að sjálfsögðu hægt að gera hlutina öðruvísi. En þetta er hluti af því sem við þurfum að vita af til þess að geta nálgast þessa umræðu og aðstæður á réttan hátt, til þess að láta ekki plata okkur í viðbrögð sem eru ofsafengin á einn eða annan hátt. Ég myndi óska þess að fólk myndi íhuga það einu sinni eða tvisvar áður en það tekur undir það sem hefur verið sýnt fram á að sé áróður, beinlínis áróður frá Rússlandi, því að það mun alls ekki hjálpa okkur að glíma við vandann sem við stöndum frammi fyrir bara innan lands af öllum öðrum ástæðum heldur en þeim sem er verið að kynda undir. En síst af öllu mun það verða lýðræðinu eða mannréttindum til góðs.