138. löggjafarþing — 111. fundur,  26. apr. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[17:35]
Horfa

Frsm. minni hluta sjútv.- og landbn. (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra að eiga orðastað við mig. Ég er svolítið undrandi á þessu svari við ítrekaðri spurningu um veiðisvæðin þar sem ráðherrann segir að þau verði væntanlega með svipuðum hætti og síðastliðið sumar. Ég hélt einmitt að það hefði reynst nokkuð illa og þess vegna hefði þetta ákvæði verið haft opið núna til þess að bregðast við því. Mér fannst til að mynda skorta rök fyrir því af hverju landið væri ekki eitt veiðisvæði og jöfn skipting á mánuðum til að tryggja ákveðna dreifingu. Mér finnst vanta þessa rökræðu um málið frá upphafi og held því þess vegna til streitu að nauðsynlegt sé að taka umræðuna upp í nefndinni milli 2. og 3. umr. í þinginu.

Jafnframt vil ég ítreka beiðni mína um að úttektin verði gerð af einhverjum nýjum aðila til að fá sérfræðiálit annars og það verði dýpkað, ekki einungis fjallað um meðferð afla heldur farið ofan í samfélagslega og jafnframt tekjutengda þætti. Ég nefndi nokkur atriði í ræðu minni sem hefði verið áhugavert að heyra álit ráðherrans á en ég skynjaði að það væri okkar í þinginu að leggja fram breytingartillögu um fjölgun banndaga eða minnka magn á dag til þess að reyna að tryggja að fleiri komist að og að magnið (Forseti hringir.) dugi til veiða lengur en nokkra daga í hverjum mánuði.