144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:36]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna, hún var góð og ég skil vel óánægju hennar með að þurfa að tala við þessar aðstæður sem eru kannski ekki boðlegar. Þessi umræða hefur svo sem ekki verið þinginu sérstaklega til vegsauka, sem er mjög leitt því að við upplifðum á sínum tíma mikið hrun og maður upplifir núna í samfélaginu siðrof. Við sjáum það bara á fréttaflutningi um þingmenn og einkahagi þeirra og annað. Þetta er komið alveg í drullupoll sem hv. þm. Ásmundur Friðriksson sagði að við skyldum reyna að forðast.

Eitt af því sem mér finnst svo mikilvægt í þessu máli er að hlusta á raddir fólksins sem býr á umræddum svæðum. Ég hef nefnt það áður í ræðu. Það sem ég hef áhyggjur af og spyr hv. þingmann um er hvort hún deili þeim áhyggjum með mér að það verði stríð ef þetta verður ákveðið eins og bændur hafa gefið í skyn í blaðaviðtölum og í viðtölum á netinu. Stríðið rétt byrjaði þegar farið var að tala um að setja Hvammsvirkjun í nýtingarflokk.