149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:43]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og þakka honum fyrir að taka þátt í þessari umræðu. Því miður hafa aðrir þingmenn en Miðflokksmenn ekki haft mikinn áhuga á þessu mikilvæga máli. Ég vil einnig þakka honum fyrir að nefna að hann sé hlynntur því að fresta þessu máli fram til haustsins. Það er mikilvægt í mínum huga og okkar allra í Miðflokknum að málið fái vandaða umræðu vegna þess að ýmsar upplýsingar hafa komið fram á síðustu metrunum sem ekki hafa verið ræddar og svör við ýmsu sem þyrfti að fara mun betur í, m.a. til að skoða áhrif á heimilin og fyrirtækin í landinu við innleiðingu á orkupakka þrjú.

Ég hjó sérstaklega eftir því fyrr í dag undir liðnum óundirbúnar fyrirspurnir að hv. þingmaður nefndi það að hv. þingmenn Miðflokksins færu hér með staðlausa stafi, væru með málflutning sem ætti ekki við rök að styðjast o.s.frv. Þá langar mig aðeins að rifja eitt upp. Ég hef verið ötull við að benda á það að raforkuverð hafi hækkað við innleiðingu orkupakka eitt og tvö vegna þess að ég tel að það sama muni gerast við orkupakka þrjú. Ég nefndi sem dæmi úr blaðagrein frá 2005 í Vísi þar sem stendur: Orkuverð hækkar vegna orkulaga. Þetta er frá 2005 og svo er önnur grein í Dagblaðinu frá 2005 sem segir: Ellilífeyrisþegi í áfalli yfir tvöföldum rafmagnsreikningi. Þetta er allt vegna hækkunar á rafmagni vegna innleiðingar orkupakka eitt.

Ég spyr hv. þingmann: Eru það rangfærslur hjá mér að nefna þessi dæmi?