149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:04]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Það vill verða svo að boðberar gegnsæis verði lítt áhugasamir ef það hentar þeim ekki þann daginn.

Þó að ég sé til þess að gera nýkominn á þing fylgdist ég bærilega með um allnokkurn tíma þar áður. Ég man í fljótu bragði ekki eftir því að svona sambærilegur pakki og orkupakki fjögur er, að teknu tilliti til orkupakka þrjú í þessu Evrópubixi öllu, að næsti pakki hafi verið fullmótaður og tilbúinn áður en undanfarinn hafi verið innleiddur. Það getur verið að þetta sé þekkingarleysi hjá mér, en ég held að svo sé.

Er þetta ekki alveg einstakt tækifæri til að grunda ákvörðunina betur, hvernig staðið er að innleiðingunni og þá í framhaldinu væntanlega hvort tekin yrði ákvörðun um að vísa málinu til sameiginlegu EES-nefndarinnar? Er það ekki alveg einstakt tækifæri sem við stöndum frammi fyrir núna, síðan á miðvikudaginn í síðustu viku, að skoða heildaráhrif þessara — það eru tveir þriðju, ef rétt er að þetta verði fimm pakkar, þótt maður hafi svo sem enga fullvissu fyrir því, en verði þetta fimm pakkar þá eru tveir þriðju af heildarmagninu, sem sagt tveir af þremur pökkum, sem liggur þá fyrir. Er þetta ekki í rauninni glapræði, hreint og beint, að ætla að halda áfram með þriðja orkupakkann án þess að fjórði orkupakkinn verði skoðaður í samhengi?

Mér er alveg fyrirmunað að skilja hvernig hinir ágætu innleiðingarsinnar hvað orkupakkann varðar komast að þeirri niðurstöðu að þetta sé skynsamlegt.