149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:10]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var mjög athyglisvert sem hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson kom að þegar hann ræddi um að erfitt væri að sleppa, að menn festust í neti reglugerða Evrópusambandsins. Við erum á Evrópska efnahagssvæðinu þannig að það er kannski örlítið öðruvísi með okkur. Við erum undanþegin ákveðnum þáttum í lagaumhverfi Evrópusambandsins eins og kunnugt er, t.d. með fiskveiðar. Þarna er komið nýtt svið, raforkugeirinn, sem við ákváðum vitandi vits að innleiða á Íslandi og þykjumst svo vera með einhverja lagalega fyrirvara.

En hv. þingmaður hefur líka rætt um að margt sé órætt í þessu máli. Ég er alveg sammála hv. þingmanni, það er margt órætt í málinu, og ég ætla að nefna nokkur atriði, bara að renna yfir þau. Ég ætlast ekki til að hann svari þeim beint.

Meiri umræðu þarf um lagalegu fyrirvarana okkar, hvernig þeir eru og hvert haldið er í þeim. Það þarf að ræða betur.

Það þarf að ræða fjórðu orkutilskipun Evrópusambandsins sem nýbúið er að samþykkja í ráðherraráði Evrópusambandsins. Það var gert í síðustu viku. Það þarf að sjálfsögðu að ræða hana í samhengi við þetta mál hér. Við erum að innleiða þriðju tilskipunina og sú fjórða er þegar komin í Evrópu. Af hverju er hún ekki rædd, af hverju er hún ekki opinberuð og rædd opinskátt þegar við erum að ræða þriðju orkutilskipunina?

Annað sem ég ætla að tala um er heildaráhrifin. Það er ekkert rætt um heildaráhrifin. Hver væru heildaráhrifin af pakkanum ef sæstrengur kæmi innan skamms tíma í því umhverfi sem þá myndi skapast þegar sæstrengurinn væri kominn?

Það er svo margt sem á eftir að ræða algjörlega. Hver eru áhrif meginmarkmiða Evrópusambandsins á þessa orkutilskipun?