149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:58]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni og tek undir með honum að það er mjög sérkennilegt að stjórnvöld skuli ekki hafa lært af reynslunni og þar blasir náttúrlega við hið svokallaða hráakjötsmál, eða frystiskyldumálið, ef við getum orðað það þannig. Þar setjum við lagalega fyrirvara, teljum að við séum búin að tryggja okkur algerlega fyrir því að þurfa að flytja inn hrátt kjöt til landsins sem getur ógnað og mun ógna okkar hreinu búfjárstofnum, okkar hreina landbúnaði og jafnvel lýðheilsu manna.

Við innleiðum matvælalöggjöf Evrópusambandsins 2009 og henni fylgja þær kvaðir að ryðja úr vegi öllum hindrunum, alveg eins og í þessu máli. Það þýðir að hingað verðum við að flytja inn landbúnaðarvörur frá Evrópusambandinu, hvort sem það er hrátt kjöt eða eitthvað annað, egg o.s.frv. Við töldum að við værum búin að tryggja okkur með því að setja þennan lagalega fyrirvara, settum sérstök lög um að allt kjöt yrði að vera fryst í 30 daga áður en það kæmi hingað til lands. Og hvað kemur svo á daginn? Jú, þessi fyrirvari heldur ekki. Það tekur sem sagt, frá því að þetta er innleitt 2009, tíu ár þar til að hingað er komið hrátt kjöt 2019 nú á haustmánuðum.

Þarna er bara alveg klassískt dæmi um að þessi leið er ófær. Þessi leið, að vera með einhvern svona lagalegan fyrirvara sem við setjum sjálf án þess að gera það sameiginlega í EES-nefndinni, heldur ekki. Og ég verð að segja það, herra forseti, að ég er (Forseti hringir.) ákaflega hissa á því að stjórnvöld skuli ekki hafa lært neitt af kjötmálinu svokallaða.