149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:48]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég vil benda á að í umsögn um þingsályktunartillöguna segist Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, sem þekkir EES-samninginn afar vel, telja að við innleiðingu orkupakka þrjú og þá tengingar við sæstreng komi orkuverð til heimila og fyrirtækja í landinu á Íslandi til með að hækka um a.m.k. 50%.

Það sem ég vildi nefna í þessu sambandi er að við orkupakka eitt fullyrtu stjórnvöld að raforkuverð myndi ekki hækka og þáverandi iðnaðarráðherra fullyrti bara að það kæmi ekki til hækkunar vegna þessara nýju laga. Annað kom á daginn. Það er nákvæmlega það sama með orkupakka þrjú, stjórnvöld geta ekki fullyrt hér og nú að hann komi ekki til með að hækka raforkuverð. Samkvæmt tilskipun 72/2009 ber (Forseti hringir.) Landsneti að framkvæma tengingar að vindorkuverum. Sá kostnaður kemur til með að falla á Landsnet sem er síðan (Forseti hringir.) almenningur í landinu þannig að það eitt getur t.d. hækkað raforkuverð.