135. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2008.

símhleranir á árunum 1949 til 1968.

[18:14]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Mér er nokkuð brugðið eftir þessi orð dómsmálaráðherra, Björns Bjarnasonar. Ég hlýt að spyrja: Er þetta afstaða ríkisstjórnarinnar? Við höfum hlustað á ráðherra Samfylkingarinnar lýsa yfir afstöðu sinni gegn afstöðu einstakra ráðherra samstarfsflokksins. Herra forseti. Ég kalla eftir yfirlýsingu samfylkingarmanna þar sem þeir ómerki þá lúalegu ræðu sem hæstv. dómsmálaráðherra flutti hér.

Ég vil þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir að taka þetta mál upp og ég vil þakka Kjartani Ólafssyni, fyrrverandi alþingismanni og ritstjóra, sem hæstv. dómsmálaráðherra kann ekki annað en að kalla kommúnista og notar þar orðaleppa Bandaríkjamanna úr kalda stríðinu sem voru notaðir yfir alla vinstri menn. Við sjáum að kaldastríðshamur rennur á hæstv. dómsmálaráðherra þegar þessi mál koma til umræðu. Hvar er vörnin? Hún er í þessum orðaleppum.

Þetta er svartur blettur á sögu lýðveldisins. Og það er rétt að valdhafar í dag skulda afkomendum og þeim einstaklingum sem þarna var brotið gegn afsökunarbeiðni, og við höfum dæmið frá Noregi.

Hins vegar er ljóst að þingið og Samfylkingin og jafnvel hæstv. forsætisráðherra þurfa að taka þennan kaleik af dómsmálaráðherra því að hann er að mínu viti ekki hæfur til að fara með hann, herra forseti.

Í bók Guðna Th. Jóhannessonar eru fimm til sex blaðsíðna nafnaregistur yfir fólk sem brotið var á og fólk sem vann við að brjóta á öðrum lög. Ég vil spyrja hæstv. dómsmálaráðherra af því tilefni að þarna eru nokkrir lögreglumenn nefndir sem unnu við þetta hvort hann sé tilbúinn til að aflétta (Forseti hringir.) almennri þagnarskyldu af þessum mönnum þannig að þeir geti og megi tjá sig opinberlega um þá svívirðu sem hér er til umræðu.