149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:31]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Það sem mig langaði að koma aðeins inn á við hv. þingmann er sæstrengurinn, eins og hann nefndi hér aðeins. Forsætisráðherra gaf frá sér svolítið merkilega yfirlýsingu í gær þess efnis að hún vonaðist til þess að sæstrengur yrði ekki lagður. Auðvitað tekur maður undir það með henni, a.m.k. að ef sæstrengur yrði lagður þá yrði hann lagður á íslenskum forsendum, þ.e. hann yrði þá bara gerður á okkar vegum en ekki með þeim hætti sem hér er lagt upp með, að hann verði alfarið á valdi Evrópusambandsins þegar fram í sækir og við hefðum sáralítið um þau mál að segja.

En það sem mig langaði að spyrja hv. þingmann út í er sú yfirlýsing að vonast sé til þess að sæstrengur verði ekki lagður. Það hlýtur að gefa augaleið að ekki er hægt að treysta fyrirvara sem settur er til heimabrúks, ef svo má segja, af hálfu ríkisstjórnarinnar, um að hér verði ekki lagður sæstrengur, að það verði bundið í lög, vegna þess að það eru kosningar reglulega, skipt er um kjörna fulltrúa, skipt er um ríkisstjórn og ný ríkisstjórn eða meiri hluti myndaður o.s.frv.

Má ekki líta svo á að nánast sé hægt að segja það þannig að við getum búist við því að ákvörðun sem þessari verði bara breytt jafnskjótt og hún er sett á, þ.e. lög um að hér verði ekki sæstrengur? Að þau verði bara afnumin þegar ákveðnum þrýstingi beitt? Kannski er meginefnið þetta: Getum við treyst því að staðið verði við það, (Forseti hringir.) að Alþingi standi við það að hér verði ekki lagður sæstrengur?