149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:09]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Jú, ég held að það væri ráð. Ég held að það væri líka ráð, herra forseti, að ríkisstjórnarmeirihlutinn myndi kynna þetta mál almennilega, þótt ekki væri nema fyrir þingmönnum. Það er greinilegt að þeir hafa ekki kynnt þetta fyrir sínum eigin þingmönnum og ég er alveg sannfærður um að ef sitjandi forseti hugsar til baka er hann sammála mér um að slík kynning hafi ekki farið fram að gagni.

Nú ætla ég að segja eitt í viðbót, herra forseti. Ef meiri hluta utanríkismálanefndar hefði lánast að lesa bara þessa umsögn sér til gagns hefði hún ekki mælt með því að þetta mál yrði afgreitt eins og hún ætlar að gera núna. Ef við tökum svo saman umsögn Eyjólfs Ármannssonar og fleiri og fleiri er það enn brýnna og enn augljósara að meiri hluti utanríkismálanefndar átti ekki að mæla með því að málið færi svona í gegn.

Ég vona að forseti hafi grætt töluvert á því að sitja hér og hlýða á þær umræður sem hafa farið fram undanfarið vegna þess það er alveg dagljóst að menn eru, þá er ég að tala um meiri hluta þingsins og fylgifiska, að taka þvílíka áhættu með fjöregg íslensku þjóðarinnar að ég veit ekki hvort að hægt er að kalla þetta gáleysi — nú kemur lögfræðiþekking forseta mér hugsanlega til hjálpar — vítavert gáleysi eða hvort menn hafa bara svona einbeittan vilja til að ana áfram þrátt fyrir allar þær viðvaranir sem menn hafa fengið í þessu máli. (Forseti hringir.) Ég held að menn ættu að byrja á því að kynna þetta mál en að sjálfsögðu er ég sammála hv. þingmanni um að það þyrfti að kynna þessi mál saman og áhrifin af þeim báðum til samans.