Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 112. fundur,  30. maí 2023.

ný sorpbrennslustöð.

312. mál
[15:46]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf):

Frú forseti. Hér er um afar mikilvægt mál að ræða. Það snýr ekki eingöngu að hæstv. umhverfisráðherra heldur einnig matvælaráðherra og innviðaráðherra. Það er alveg ljóst að það standa ýmis spjót á þjóðinni hvað þessi mál varðar. Það féll m.a. dómur þann 29. júlí 2022, EFTA-dómstóllinn felldi þann dóm, um að Ísland stæði ekki við skuldbindingar sínar hvað varðar förgun og meðhöndlun á áhættuvefjum. Áhættuvefir tengjast okkur m.a. út af því að við höfum riðuna. Sú staða að við höfum hér ekki ásættanlega förgunarleið fyrir áhættuvefi olli m.a. vandræðaástandi í Húnaþingi vestra bara í síðasta mánuði. Ef við ætlum að leysa úr þessum málum þá þarf að sýna einhverja forystuhæfileika en mér finnst með ríkisstjórnina eins og það sé hver að bíða eftir öðrum að leysa þetta einfalda mál, sem er að byggja sorpbrennslustöð eða viðunandi úrræði til að farga áhættuvefjum. (Forseti hringir.) Ég vonast til þess að hæstv. umhverfisráðherra taki það að sér að vera forystumaður í þessu máli fyrir þjóðina.