144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

verkleysi stjórnarmeirihlutans.

[13:24]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég viðurkenni að mér þykir það bagalegt að helgin hafi ekki verið nýtt til að ræða hugsanlegar lausnir á því hvernig við ætlum að halda áfram störfum Alþingis og að enn og aftur séu sömu mál sett á dagskrá, mál sem fullkominn ágreiningur er um, ekki aðeins út af efnisinnihaldi heldur einnig út af málatilbúnaði og formi á breytingartillögu meiri hluta atvinnuveganefndar þingsins, breytingartillögu sem við erum ítrekað búin að gera athugasemdir við að standist ekki lagarammann um rammaáætlun og standist auðvitað engar kröfur um góð vinnubrögð. Það sem ég hef heyrt af fundi hv. atvinnuveganefndar í morgun rennir nú stoðum undir það.

Herra forseti. Ég geri enn og aftur athugasemdir við þessa dagskrá. Ég geri enn og aftur athugasemdir við að við skulum nýta tíma þingsins í þetta mál. Við bárum ekki upp dagskrártillögu um að ræða hér stöðuna á vinnumarkaði því að okkur hefur skilist að meiri hlutinn á Alþingi hafi engan áhuga á að ræða stöðuna á vinnumarkaði og miðað við yfirlýsingar ráðamanna um helgina (Forseti hringir.) undrar það mig ekki, herra forseti.