144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

verkleysi stjórnarmeirihlutans.

[13:31]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Mig langar að fara þess á leit við forseta, þar sem þessi vika hefst nú á þriðjudegi og það er pólitískt uppnám í samfélaginu og á þinginu, að óska eftir ráðrúmi fyrir þingflokksfundi. Það gengur ekki að byrja hér þriðju vikuna í sömu umræðunni án þess að við fáum ráðrúm til þess að ráða ráðum okkar með þingflokkunum. Hér hefur bæði verið haldinn fundur með þingflokksformönnum og svo fundur í atvinnuveganefnd í morgun þar sem dró til tíðinda sem hér hefur verið gerð grein fyrir.

Ég held að það sé ótækt annað en að við náum að hitta okkar fólk og stilla saman strengi fyrir dagana sem fram undan eru. Þannig er það þegar vikurnar hefjast á mánudögum. Þá hittum við þingflokksformenn forseta á fundi í hádeginu sem er síðan fylgt eftir með fundum í þingflokkum. Ég fer þess á leit við hæstv. forseta að gefa rými fyrir fund þingflokka, til að mynda að afloknum óundirbúnum fyrirspurnatíma.