144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

um fundarstjórn.

[20:07]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég tel nú eðlilegt eftir tveggja vikna þóf að koma hér upp og þakka forseta kærlega fyrir að taka stjórnina í þinginu. Ég vil þó minna á að óháð dagskrá þingsins hefst hér eftir innan við fjórar klukkustundir verkfall hjúkrunarfræðinga. Ég hef verulegar áhyggjur af því ástandi og það er svo langt því frá að ég sé ein um það. Ég held að landsmenn séu almennt uggandi yfir þróuninni. Landlæknir lýsti yfir miklum áhyggjum í sjónvarpinu í kvöld. Ég ætla að endurtaka óskir mínar um að beiðni um munnlega skýrslu hæstv. forsætisráðherra um stöðuna á vinnumarkaði verði tekin fyrir á morgun svo við getum rætt með hvaða hætti Alþingi getur komið að því eða hvað ríkisstjórnin er að ráðgera til þess að leysa úr þeirri alvarlegu (Forseti hringir.) krísu sem upp er komin í heilbrigðiskerfinu.