149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:56]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Jú, auðvitað veltir maður fyrir sér hvers vegna þessir flokkar leggja svona ríka áherslu á að koma málinu í gegn, eins og t.d. Vinstri grænir sem hafa talað og töluðu eindregið gegn orkupakka eitt og tvö og maður hefði talið að væri ekki markaðshyggjuflokkur. En það er greinilegt að flokkurinn er orðinn markaðshyggjuflokkur, sem er náttúrlega alveg ótrúlegt. Mér segir svo hugur um að grasrót flokksins muni ekki una við það, nema þá hreinlega að flokkurinn líði undir lok ef það verður niðurstaðan. En þeir eru greinilega tilbúnir að taka þá áhættu og þá hljóta að vera einhverjir hagsmunir þar á bak við sem skipta þá máli.

Kannski þessi hugmynd sem ég varpaði hér fram, hvort niðurstaðan gæti verið sú að Vinstri grænir sæju þarna möguleika á að hægt væri að koma stóriðjunni úr landi, ef svo má að orði komast. Þetta er flokkur sem hefur náttúrlega ávallt verið andsnúin stóriðju í landinu og virðist ekki hafa neinar áhyggjur af því að þau fyrirtæki gætu farið héðan úr landi og myndu sjálfsagt fagna því, en um leið myndu þá fjölmargar og hundruð fjölskyldna missa lífsviðurværi sitt, missa atvinnu og útflutningstekjur skerðast að sama skapi, mikilvægar útflutningstekjur. Það var nú þannig eftir hrunið að þetta voru fyrirtæki sem skiptu okkur algerlega sköpum. Það kann að vera að þetta liggi að baki hvað Vinstri græna varðar. — Ég sé að (Forseti hringir.) tíminn er búinn, herra forseti, ég kem kannski inn á aðra flokka á eftir.