149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[08:56]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er ágætisbrýning. Ég held að hv. þm. Sigurður Páll Jónsson sé nú bara rétt að tæpa á svona byrjun og leggja fyrir sig málin, svo ég taki aðeins upp hanskann fyrir hv. þingmann.

Hann velti fyrir sér vindmyllugörðum og þá vaknaði spurning hjá mér: Er þörf á þeim á Íslandi? Er þörf fyrir okkur að setja upp vindmyllugarða svo að næg orka verði til hér innan lands? Eða eru einhverjar aðrar hvatir að baki því að fólk er virkilega farið að hugsa um vindmyllugarða sem einhver stór fyrirbæri?

Við vitum að flutningur raforku innan lands hefur helst staðið í mönnum og Landsnet hefur einmitt viðrað þá skoðun sína að eitthvað þurfi að gerast raunverulega í þeim málum. Ég er auðvitað á því að orka er auðlindamál þar sem við nýtum orkuna í alla hluti liggur við sem við tökum okkur fyrir hendur.

Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir að vekja athygli á því. Mig minnir að við höfum tvö frumvörp þar sem fjallað er um skilgreiningar á auðlindum og svo það hvernig við eigum að haga gjaldtöku af auðlindum. Þetta eru tvö mál sem við höfum nú þegar og höfum mælt fyrir á þessu þingi.