154. löggjafarþing — 113. fundur,  16. maí 2024.

útlendingar.

722. mál
[14:56]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Bryndís Haraldsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka aftur hv. þingmanni fyrir andsvarið. 2. mgr. 36. gr. er klárlega séríslensk regla þannig að með því að taka hana út þá erum við að samræma okkur við ekki bara Norðurlöndin heldur í rauninni öll Evrópuríkin. Ég ætla aftur að leggja áherslu á það að Evrópusambandið er nú með til umfjöllunar sérstaka pakka og þar eru öll ríkin að reyna að fara í sömu átt með að samræma reglur sínar.

Hvað varðar aftur á móti dvalarleyfistíma og fjölskyldusameiningar þá er það alveg rétt, Norðurlöndin eru ekki öll á sama báti. Þá ætla ég bara að fara yfir það. Í dag fá þeir sem hér fá alþjóðlega vernd dvalarleyfi í fjögur ár. Við erum að breyta því í þrjú. Viðbótarverndin fer líka úr fjórum árum en í tvö. Í Danmörku eru þetta tvö ár og eitt ár í dag, í Svíþjóð þrjú ár og 13 mánuðir, í Noregi þrjú ár í báðum tilfellum. Finnar eru enn með fjögur ár í báðum tilfellum en hafa boðað lækkun. Það er jú enginn með nákvæmlega sömu reglurnar, en það er alveg ljóst að að óbreyttu þá værum við með lengstu dvalarleyfin vegna þess að Finnar eru að breyta sínu. Það sem við erum að gera er að færa okkur nær því sem þekkist á hinum Norðurlöndunum. (Forseti hringir.) Það sama á við um fjölskyldusameiningarnar og vel farið yfir það í minnisblaði ráðuneytisins að það eru almennt gerðar inngildingarkröfur sem munu taka ákveðinn tíma. Fólk þar af leiðandi getur ekki sótt um fjölskyldusameiningu um leið og það fær alþjóðlega vernd. (Forseti hringir.) Það þarf að uppfylla einhver skilyrði áður og þar erum við líka að reyna að nálgast hin Norðurlöndin. En það er alveg rétt, það eru ekki allir með nákvæmlega sömu regluna hvað þetta varðar en við erum að færast nær þeim.