154. löggjafarþing — 113. fundur,  16. maí 2024.

útlendingar.

722. mál
[16:56]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allsh.- og menntmn. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni framsögumanni 3. minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar nefndarálitið og frávísunartillögu. Ég vil segja að nefndarálit 3. minni hluta er áhugaverð lesning þótt ég sé ekki sammála í grunninn. Mig langar að ræða nokkur atriði þar. Þar segir t.d., með leyfi forseta:

„Manneskjur eru aldrei vandamál, heldur er hver manneskja tækifæri fyrir samfélagið til að auðgast, vaxa og dafna. Fólk er ekki byrði á samfélögum, samfélög eru fólk. […]

Ástandið sem fólk er að flýja er svo margfalt ógeðslegra en við gætum nokkurn tímann orðað. Við verðum alltaf betri kostur.“

Heimurinn er harður og sagan er erfið og það eru stríð í heiminum þó svo að undanfarnir áratugir hafi verið friðsælli í mannkynssögunni en árhundruðin á undan, þótt núna sé orðin breyting á. Spurningin er þessi því nú er fjallað í flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna um samábyrgð, að lönd eigi að axla samábyrgð á flóttamannavanda heimsins: Er Ísland ekki að gera meira en raunveruleg ábyrgð Íslands er gagnvart flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna ef við horfum á þær háu tölur varðandi hælisleitendur sem hingað koma? Til dæmis komu árið 2022 582 á hverja 100.000 á meðan í Skandinavíu voru það í kringum 80 á 100.000. Finnst hv. þingmanni við ekki bera þessa samábyrgð með miklum sóma og raunverulega gera miklu meira en okkar ábyrgð er gagnvart alþjóðalögum? Við erum 400.000 manna samfélag á einangraðri eyju hér úti í Norður-Atlantshafi. Og spurningin er: Hvað eigum við að gera meira? Hvað vill flokkur hv. þingmanns? (Forseti hringir.) Annað að lokum: Hvað felst í því að málinu verði vísað til ríkisstjórnar? Er verið að fara fram á að ríkisstjórnin endurskoði frumvarpið og komi með annað frumvarp til breytinga á þessum lögum?