154. löggjafarþing — 113. fundur,  16. maí 2024.

útlendingar.

722. mál
[17:17]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég er mjög eindregið á því að þegar við erum að ræða um þessi mál þá þurfum við að gera tvennt. Við þurfum annars vegar að ræða efnislega um verndarkerfið okkar og regluverkið sem snýr að útlendingum hér á Íslandi. En síðan er það hitt að við þurfum að vanda okkur í umræðunni og passa okkur á því að etja ekki saman hópum, fara rétt með staðreyndir og meta tölfræðina sem liggur að baki rétt. Mér finnst eins og við höfum kannski pínulítið misstigið okkur í því á undanförnum árum. Það sem er hins vegar rétt hjá hv. þingmanni er að umræðan t.d. um þetta mál sem hér liggur fyrir núna er auðvitað miklu hófstilltari en umræðan sem var um útlendingafrumvarpið sem við samþykktum síðast, einfaldlega vegna þess að þar var þjónustusviptingin inni sem varð síðan auðvitað að heilmiklu máli í samfélaginu eins og við munum þegar það allt saman kom til framkvæmda; deilur milli ráðherra, deilur milli ríkis og sveitarfélaga, fólk komið á götuna. Það var kannski verri tónn í þeirri umræðu á báða bóga, held ég að megi segja.

Ég er sjálfur þeirrar skoðunar að eitt og annað í þessu frumvarpi sé bara í stakasta lagi. Annað finnst mér hins vegar verra. Þá stendur maður frammi fyrir þessu hagsmunamati og hvernig maður metur frumvarpið í heild sinni. Eitt er í þessu frumvarpi sem mér finnst mjög vont og það eru þessi þrengri skilyrði til fjölskyldusameiningar. Ég hefði haldið að sama hvar í flokki menn standa og sama hvaða skoðun menn hafa á útlendingamálum þá ættu menn að geta fallist á að þegar fólk á annað borð er komið með vernd hér á Íslandi, viðbótarvernd vegna þess að því er hætta búin af almennu ástandi í heimaríkinu, þá gætum við séð að fjölskyldur viðkomandi eru þá í þessari hættu í heimaríkinu. Við erum kannski flest fjölskyldufólk og getum auðveldlega mátað okkur við þær aðstæður. Við myndum ekki sjálf vilja þurfa að bíða í tvö ár eftir því að geta sameinast fólkinu okkar ef því er hætta búin í heimaríki okkar. (Forseti hringir.) Þannig að mig langar að inna hv. þingmann um hans skoðun á þessum þrengri skilyrðum sem gerð eru gagnvart fjölskyldusameiningunni sem snýr að að viðbótarverndinni.