154. löggjafarþing — 113. fundur,  16. maí 2024.

útlendingar.

722. mál
[21:35]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Mig langar að benda honum á að fletta upp ræðu hv. þm. Birgis Þórarinssonar hér áðan þar sem hann sagði nákvæmlega það að það væri vegna hælisleitenda í skólum á Reykjanesi sem skólar væru í vandamálum. Það er nákvæmlega það sem ég er að tala um. Varðandi það hvort við eigum að taka hlutfallslega á móti fleirum eða ekki þá minni ég hv. þingmann á að við vinnum alltaf allan samanburð þegar miðað er við höfðatölu þannig að ekki er hægt að nota hann í öllu slíku. Ég minni líka hv. þingmann á að það var ákvörðun ríkisstjórnar Íslands að bjóða hingað til lands Úkraínubúum og stór hluti af þeim sem hafa verið að koma hér á undanförnum tveimur árum eru Úkraínubúar. Það hefur að sjálfsögðu sett mikið álag á allt kerfið en það var ákvörðun sem var tekin, ákvörðun um að bjóða þeim að koma hingað, ákvörðun um að veita þeim ákveðna þjónustu og ákveðna vernd án þess að þurfa að fara í gegnum sama ferli. Það hefur áhrif á allar þessar tölur. Ég segi bara eins og var sagt hér áðan: Við þurfum að taka á móti þeim sem lágmarkskröfurnar í þeim alþjóðasamningum sem við erum búin að skrifa undir segja til um. Við þurfum a.m.k. að uppfylla lágmarkskröfurnar. Það held ég að við gætum orðið sammála um.