138. löggjafarþing — 113. fundur,  27. apr. 2010.

stefnumótandi byggðaáætlun 2010--2013.

521. mál
[20:15]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Áðan var sagt að e.t.v. væri þessi þingsályktunartillaga um byggðaáætlun sú síðasta í röðinni. Ég skal ekki spá neinu um það en þá finnst mér hún enda dálítið snautlega, saga byggðaáætlananna, ef þetta er það síðasta sem við sjáum til þeirra í þingsölum. Þessi tillaga er mjög miklum annmörkum háð enda er gert ráð fyrir því, eins og hér segir, að þetta sé eins konar bráðabirgðaáætlun, þetta sé yfirlýsing um að bíða átekta eftir að einhverjar aðrar áætlanir líti dagsins ljós, og fyrir vikið er þessi áætlun ekki jafnheildstæð og annars hefði mátt vænta.

Í þessari tillögu eru líka tínd til alls konar atriði sem eru góðra gjalda verð út af fyrir sig en hafa ekki þessa skýru byggðalegu tengingu sem maður gerir kröfu um að birtist í áætlunum af þessu tagi. Mjög margt athyglisvert er nefnt hérna sem væri vissulega ástæða til að taka undir en hins vegar er látið hjá líða að sýna okkur fram á að það sem þar er lagt til hafi einhverja sérstaka byggðalega skírskotun. Það eru t.d. mjög áhugaverðir hlutir um heildstæða áætlun um aukna hlutdeild visthæfra orkugjafa í samgöngum. Hér er talað um ýmsa slíka áhugaverða hluti um rannsóknir en hins vegar er ekki nefnt hvort það eigi að gerast með einhverri sérstakri áherslu á að þessi verkefni séu unnin á landsbyggðinni eða að framfylgd þeirra leiði sérstaklega til þess að mannlíf og atvinnulíf á landsbyggðinni eflist. Það er auðvitað gallinn við þessa tillögu, hún er öðrum þræði upptalning á áhugaverðum hlutum sem lúta að nýsköpun, enda segir í tillögugreininni sjálfri að nýsköpun sé lausnarorðið. Hins vegar getur hvergi að líta, eða a.m.k. allt of óvíða, nákvæma útlistun á því hvernig þetta verði með beinum hætti til gagns fyrir landsbyggðina eins og þó er ætlunin með áætlunum af þessu tagi.

Þegar við stöndum núna frammi fyrir þessari áætlun þurfum við að lýsa eftir raunverulegri byggðaáætlun en hún á að bíða síns tíma og hefur núna þegar reyndar verið spáð dauðdaga.

Hér var talað um þjóðfundina. Það var mjög áhugavert að sitja þá. Hæstv. iðnaðarráðherra sagði hins vegar að markmiðið með þeim hefði verið að færa valdið til heimamanna. Ef það var markmiðið náðist það ekki vegna þess einfaldlega að þjóðfundirnir voru lagðir þannig upp mjög skýrt og markvisst af þeim sem að þeim stóðu að niðurstaðan var eiginlega gefin fyrir fram. Það var ekki spurt: Hvar liggja tækifæri? Hvar teljið þið, góðir fundarmenn, að möguleikarnir liggi í ykkar landshlutum? Þannig var ekki spurt. Spurningin var þessi: Hver er sérstaðan? Niðurstaðan varð sú að á Vestfjörðum gátu menn ekki nefnt sjávarútveginn því að sjávarútvegur er stundaður víða um landið og víða um heiminn. Á Ströndunum gátu menn ekki nefnt sauðfjárræktina því að sauðfé er líka ræktað víða um heim.

Ég var á fundi í Skagafirði og smám saman áttuðu menn sig á því að möguleikarnir sem menn töldu sjálfir að væru stærstir og mikilvægastir fyrir þessi héruð, bæði Skagafjörð og Húnavatnssýslu, voru ekki á borðunum vegna þess að spurningin gat ekki einfaldlega gefið mönnum tækifæri til að leggja á borð með sér þær hugmyndir sem fólk hafði verið að vinna með.

Ég hafði áhyggjur af því strax að þessir þjóðfundir yrðu notaðir til að leggja upp með að þetta væri tækifærið, þarna væru möguleikarnir, þarna væri það sem ætti að vinna að. Því miður virðist sá grunur minn hafa verið á rökum reistur og það finnst mér vont. Þetta var ágæt og skemmtileg æfing hjá okkur en hún sneri ekki að því að finna hinar raunverulegu, stóru og mikilvægu lausnir sem við þurfum að finna í byggðamálunum.

Ég sakna þess í þessari byggðaáætlun að sjá hvergi skýra stefnumótun eða afstöðu frá hæstv. iðnaðarráðherra um hvert hlutverk Byggðastofnunar eigi að vera. Byggðastofnun gegnir gríðarlega miklu hlutverki. Í pólitískri umræðu hefur hún hins vegar oft verið hálfgert olnbogabarn. Ég ætla hins vegar að segja það að hlutverk hennar er ómetanlegt á margan hátt og að mínu mati kemur ekki annað til greina en að styðja við bakið á Byggðastofnun í þeim verkefnum sem henni eru ætluð.

Sömuleiðis kalla ég eftir því að hæstv. iðnaðarráðherra svari því hvert eigi að vera hlutverk atvinnuþróunarfélaganna. Við tókum fyrir nokkrum árum, kannski tíu árum eða svo, meðvitaða ákvörðun um að efla atvinnuþróunarfélögin til að færa valdið heim í hérað. Sú ákvörðun reyndist vera rétt. Atvinnuþróunarfélögin hafa náð góðum árangri þó að við hefðum viljað sjá stærri hluti gerast á vettvangi þeirra. Ég sé hins vegar ekki með hvaða hætti atvinnuþróunarfélögin eiga að koma hér að málum. Til að hæstv. ráðherra ýfist ekki í skapi vil ég segja að það er auðvitað ánægjulegt að ákvörðun skuli vera tekin um að halda áfram vaxtarsamningunum. Ég vek athygli á því að vaxtarsamningarnir komust á árið 2006 í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og þeir hafa sannarlega reynst vel. Mér finnst það ekki sérstaklega þakkarvert að hæstv. ráðherra skuli taka ákvörðun um að halda því áfram sem allir sjá að reynist vel. Það er hins vegar gott að það sé gert og sama gildir í rauninni um menningarsamningana. Þó að þeir heyri ekki undir hæstv. ráðherra skipta þeir miklu máli.

Af því að ég er að tala hér um menningarsamninga sakna ég þess líka í þessari áætlun að sjá ekki skýrari stefnumótun hvað varðar menntamálin. Á sínum tíma, þegar ég sat í stjórn Byggðastofnunar undir forsæti Egils Jónssonar, var mörkuð ný byggðaáætlun á grundvelli athugunar sem gerð var um ástæður búseturöskunar, árið 1999 hygg ég að það hafi verið, og þá var lögð mjög mikil áhersla á uppbyggingu menntamála. Þar hefur margt tekist mjög vel til. Við viljum hins vegar sjá enn þá meiri árangur. Hér er fyrst og fremst vísað til þekkingarsetranna. Það er ekki vísað til neinnar stefnumótunar um frekari uppbyggingu háskólamenntunar á landsbyggðinni. Um það hafa að sönnu verið nokkuð skiptar skoðanir. Ég veit að hæstv. menntamálaráðherra er að fara yfir þessi mál núna, m.a. með hliðsjón af hugmyndum um sameiningu menntastofnana, og þess vegna hefði ég talið að það skipti miklu máli að við sæjum í þessari áætlun glitta í hugmyndir og fyrirætlan hæstv. ráðherra um að það væri stefna ríkisstjórnarinnar, m.a. í byggðalegu tilliti, að auka vægi menntunar með eflingu háskólamenntunar og framhaldsmenntunar á landsbyggðinni.

Mér finnst líka ótrúlega snautlegt að sjá höfuðatvinnuveg landsbyggðarinnar, sjávarútveginn, afgreiddan með þeim hætti að þar er eingöngu eitt atriði talið þess verðugt að koma inn í þessa áætlun, og það er að þar á að fara fram athugun á vistvænum veiðum á grunnslóð og nýtingu nýrra veiðistofna. Þetta er allt góðra gjalda vert, allt saman áhugavert, en þetta er ekki kjarni málsins. Þetta er ekki það sem menn horfa til þegar þeir velta fyrir sér hlutverki og möguleikum sjávarútvegsins á landsbyggðinni. Sjávarútvegurinn mun verða burðarstoðin í atvinnulífi okkar. Það hefur m.a. ríkisstjórnin sagt og þess vegna finnst mér afar snautlega að verki staðið þegar þessi mál eru afgreidd svona.

Annað sem ég vil líka nefna í þessu sambandi, af því að tíminn líður svona hratt, er að mér finnst nokkuð sérstakt á bls. 15, í 19. kafla, þegar talað er um vistvæna orkuöflun til húshitunar og niðurgreiðslur kostnaðar að þar er nánast afgreitt út af borðinu að hægt sé að halda áfram frekari hitaveituvæðingu á Íslandi, það hafi nánast náð hámarki hvað hagkvæmni varðar. Það er út af fyrir sig yfirlýsing sem við hljótum þá að taka mark á. Hvert er svar hæstv. ráðherra í þessum efnum? Það er það að notendur rafhitunar breyti yfir í aðra orkugjafa, svo sem varmadælur, og svo er stóra tækifærið viðarkynding í stað hitaveitna. Það er hið nýja lausnarorð í þessum efnum.

Ár eftir ár verið höfum við barist fyrir því að reyna að lækka orkukostnaðinn á landsbyggðinni. Þar hefur oft tekist vel til, því miður hefur farið á verri veg á síðustu missirum. Ég ætla ekki að kenna hæstv. iðnaðarráðherra um það en það er hins vegar staðreynd. Á köldu svæðunum er núna hlutfallslega dýrara að kynda en var fyrir fáeinum missirum. Þetta á alveg sérstaklega við í hinum dreifbýlustu svæðum sem m.a. hefur birst í því að orkukostnaðurinn hefur aukist á þessum dreifbýlustu svæðum með miklum afleiðingum fyrir landbúnaðinn og alveg sérstaklega garðyrkjuna. Þess vegna hefði ég talið, virðulegi forseti, að í þessum kafla hefðum við átt að sjá skýrari stefnumörkun af hálfu ríkisstjórnarinnar hvað þetta atriði varðaði alveg sérstaklega.

Ýmislegt fróðlegt og gott hefur verið sagt um ferðamálin. Ég ætla að nefna eitt atriði sem skiptir máli. Það er rétt að það skiptir máli að auka rannsóknir í ferðamennsku. Fyrrverandi formaður Ferðamálaráðs, Tómas Ingi Olrich, hafði frumkvæði um það á sínum tíma. Nú er tæpt á því að þessu skuli haldið áfram, og þakka skyldi. Hæstv. fyrrverandi iðnaðarráðherra, forveri núverandi ráðherra, Össur Skarphéðinsson, hafði lagt upp með ákveðnar hugmyndir í því sambandi þar sem hann ætlaði bæði Byggðastofnun og Háskólanum á Hólum ákveðið hlutverk.

Ég spyr hæstv. ráðherra, vegna þess að það kemur alls ekki fram í þessari tillögu, hvort haldið verði áfram á þeirri braut eða hvort hugmyndin sé að hverfa frá þessari stefnumörkun.

Virðulegi forseti. Tíminn hefur liðið allt of hratt. (Forseti hringir.) Þetta er mjög mikilvægt mál sem við ræðum hér. Þó að plaggið sjálft sé þykkt verður að segjast eins og er að efnisinnihaldið er rýrt (Forseti hringir.) þrátt fyrir allt. Það eru mörg fögur orð en fátt handfest sem við getum reitt okkur á.