151. löggjafarþing — 113. fundur,  12. júní 2021.

póstþjónusta og Byggðastofnun.

534. mál
[13:36]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er ágætt mál sem við greiðum hér atkvæði um. Mér þykir þó öllu meira varið í þá breytingartillögu sem fær að fylgja hér með þegar nefndin nýtir ferðina, að við afturköllum tveggja ára gömul mistök sem urðu í meðferð meiri hluta Alþingis á póstlögum þar sem kveðið var á um, þvert á alla skynsemi, að hér yrði sama verð fyrir sendingar bréfa og pakka, allt að 10 kílóum, um allt land, óháð raunkostnaði, sem reyndar var líka kveðið á um í lögunum þannig að það var þversögn í þeim. Þetta gekk þvert á hagsmuni Póstsins sem hefur verið rekinn með gríðarlegu tapi síðan, þvert á hagsmuni skattgreiðenda og þvert á hagsmuni fjölda fyrirtækja sem störfuðu á þessum markaði víðs vegar um landið með ágætum árangri. Heilbrigð skynsemi lifði góðu lífi þar til ríkið krukkaði í þessa stöðu fyrir tveimur árum. Núna er verið að laga þetta, færa til fyrra horfs, þannig að ákvæðið um sama verð fyrir allt land (Forseti hringir.) gildi bara um bréfasendingar upp að 50 grömmum.

Mig langar hins vegar til að segja eitt: Tveggja ára meðgöngutími á lagfæringum á hlutum sem ítrekað eru gagnrýndir af öllum hlutaðeigandi er of langur tími. Við verðum að gera betur.