154. löggjafarþing — 113. fundur,  16. maí 2024.

útlendingar.

722. mál
[21:12]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Bryndís Haraldsdóttir) (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur og formanni Viðreisnar fyrir ræðuna. Ég hef í rauninni beðið svolítið eftir því að fá að átta mig á því hver er afstaða Viðreisnar til þess frumvarps sem hér liggur fyrir og hver er stefna Viðreisnar í útlendingamálum. Hér hefur fulltrúi Viðreisnar í hv. allsherjar- og menntamálanefnd tekið til máls og ég farið í andsvar við hann og ljóst að þeim svörum að hann talaði bara fyrir sjálfan sig en ekki fyrir flokkinn. Ég heyri að hv. þingmaður talar um að það sé skynsamlegt að líta til hinna Norðurlandanna og þar er ég henni svo sannarlega sammála. Ég heyrði nú líka eitthvað á þá leið að það væri alveg spurning hvort verið væri að stíga nógu stór skref og ég spyr hv. þingmann hvað hún eigi við með því, því að mér fannst hún hljóma eins og félagar okkar úr Miðflokknum hafa svolítið talað, ef hún gæti útskýrt það betur hvað hún á nákvæmlega við með því. Ef ég er að skilja hv. þingmann rétt þá hallast hún að því að þetta séu góðar breytingar í þessu frumvarpi og ég ítreka hversu mikilvægar þær eru. Það verður áhugavert að sjá hvernig atkvæði Viðreisnar falla í málinu því að það er nákvæmlega verið að gera það í þessu frumvarpi, að færa lögin nær því sem þekkist á hinum Norðurlöndunum. 2. mgr. 36. gr. er algerlega séríslensk grein. Sú breytingartillaga sem liggur fyrir hér frá Samfylkingunni um að horfa bara til sérstakra tengsla en ekki sérstakra ástæðna skilur engu að síður eftir séríslenska reglu. En ég veit ekki hversu mikið hún mun raunverulega þýða því að raunverulega tekur Dyflinnarsamkomulagið á slíku. Eins og kom skýrt fram í andsvörum við Viðreisn er þar ekki átt við fólk sem hefur fengið vernd í öðrum löndum.

Þá langar mig að spyrja hv. þingmann og formann Viðreisnar beint: Er hv. þingmaður sammála því að fólk sem er með vernd í öðrum Evrópuríkjum eigi að geta komið til Íslands og sótt einnig um vernd hér?