154. löggjafarþing — 113. fundur,  16. maí 2024.

útlendingar.

722. mál
[21:33]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allsh.- og menntmn. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir innleggið og sína ræðu. Hann talaði um að það væri verið að kenna ákveðnum hópi manna um. Hann sagði það a.m.k. tvisvar. Ég hef ekki orðið var við það í þessari umræðu hér að einhver sé að kenna ákveðnum hópi um eða að einhver hópur beri ábyrgð á hinu eða þessu. Við erum að tala um breytingu á reglum um alþjóðlega vernd varðandi fjölskyldusameiningar og lengd dvalarleyfa og uppfyllingu okkar á skyldum okkar samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttarstöðu flóttafólks, þannig að ég er ósammála því að einhver sé að tala um að einhverjir ákveðnir hópar beri ábyrgð á þessu. Við erum bara að tala um það hvernig við ætlum að uppfylla þessar alþjóðlegu skuldbindingar okkar og að afnema íslenskar sérreglur, sem ég tel vera mjög mikilvægt, að við séum með sömu reglur og annars staðar. Það er mikilvægt svo að við séum ekki að bera hlutfallslega þyngri byrðar varðandi móttöku flóttamanna en önnur ríki.

Mín spurning til hv. þingmanns er þessi: Telur hann Ísland ekki hafa verið að standa sig á undanförnum árum í móttöku flóttamanna hvað varðar fjölda? Fjöldinn hjá okkur er sjö sinnum fleiri, t.d. árið 2022 tókum við hlutfallslega á móti sjö sinnum fleiri. Við tókum á móti 582 á hverja 100.000 manns meðan Norðmenn tóku á móti 85, Danir 76 af 100.000. Við á sama ári tókum á móti 582. Það ár vorum við hlutfallslega í þriðja sæti í allri Evrópu yfir móttöku flóttamanna og það var ár Úkraínu. Svo er verið að tala um að íslensk löggjöf sé eitthvað ómannúðleg eða eitthvað slíkt en ég hafna því, við getum verið ósammála um það. En telur hann ekki mikilvægt að þjóðir Evrópu t.d. og Norðurlandanna axli svipaðar byrðar? Eigum við að axla sjö sinnum meiri byrðar en Noregur varðandi móttöku flóttamanna? Hverjar eiga byrðar Íslands að vera miðað við önnur ríki?