149. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[16:19]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ágæta ræðu. Það er þrennt sem mig langar að nefna við hv. þingmann sem ég held að sé mikilvægt að draga fram. Mér sýnist í fljótu bragði við lestur umsagna að í það minnsta í nokkrum þeirra sé kvartað yfir samráðsleysi, að stefnan hafi ekki verið unnin í nógu miklu samráði við hlutaðeigandi, t.d. læknafélaög og slíka aðila. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort það hafi komið sterkt fram í nefndinni og hvort ástæða sé til að hafa efasemdir um stefnuna vegna þess að samráð var ekki nógu gott.

Í öðru lagi langar mig að spyrja þingmanninn út í það hvernig hann telur að hinum mikilvæga þætti frjálsra félagasamtaka sé mætt í heilbrigðisstefnunni. Þá ég við SÁÁ, Reykjalund og allt þetta sem við þekkjum, hvort stefnan rammi vel inn og haldi utan um þá starfsemi.

Í þriðja lagi, ef tími vinnst til, langar mig að vita hvort þingmaðurinn telji að eitthvað í stefnunni taki á þessu gamla og ótrúlega seiga vandamáli sem eru biðlistar, sem þingmaðurinn kom aðeins inn á í ræðu áðan. Það er í rauninni mjög merkilegt ef við erum að leggja fram stefnu sem við höfum á sama tíma ekki trú á að taki á helstu vandamálum í kerfinu, þar á meðal biðlistunum, sem eru ótrúlega langir mjög víða.

Þannig að það er í rauninni þetta þrennt, samráðsleysið, frjálsu félagasamtökin og biðlistarnir, sem mér er efst í huga.