Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2023.

landbúnaðarstefna til ársins 2040.

914. mál
[17:04]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Hér mæli ég fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um tillögu til þingsályktunar um landbúnaðarstefnu til ársins 2040, frá meiri hluta atvinnuveganefndar. Eins og fram kemur í nefndarálitinu fékk nefndin á sinn fund talsvert af gestum og eðli máls samkvæmt umsagnir sem finna má hér í álitinu.

Eins og heiti tillögunnar gefur til kynna þá felst í henni stefnumörkun í landbúnaðarmálum fram til ársins 2040. Enda þótt margvísleg löggjöf hafi verið sett um landbúnað og málefni tengd landbúnaði á undanförnum árum og áratugum hefur Alþingi ekki áður sett langtímastefnumörkun um þessa grein þar sem lýst er þeim meginmarkmiðum sem stefnt skuli að í íslenskum landbúnaði og sem móti löggjöf um greinina. Að því leyti til markar þessi þingsályktunartillaga tímamót. Haustið 2021 lagði þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Kristján Þór Júlíusson, fram heildstæða landbúnaðarstefnu undir heitinu Ræktum Ísland, sem var afrakstur samvinnuverkefnis stjórnvalda, bænda, neytenda og fulltrúa atvinnulífsins sem stóð yfir í um þrjú ár. Þessi þingsályktunartillaga sækir margt í þetta stefnuskjal sem og búvörulög og búvörusamninga fyrri ára.

Meðal mikilvægra markmiða í tillögunni má nefna sjálfbærni í nýtingu náttúruauðlinda, landnýtingu sem taki mið af ástandi og getu vistkerfa og verndun og eflingu líffræðilegrar fjölbreytni, framleiðslu heilnæmra afurða og fæðuöryggi. Þá er auðvitað bara fátt eitt talið af því sem fjallað er um í þessari þingsályktunartillögu og snýr að náttúru Íslands, íslensku samfélagi og þýðingu landbúnaðar fyrir íslenskt samfélag.

Nefndin fjallaði m.a. um tengsl landbúnaðar við aðra landnýtingu, t.d. skógrækt, og síðan var líka rætt um mikilvægi skipulagsmála og skipulagsvalds fyrir sambúð þeirra atvinnugreina sem nýta landgæði og einnig fyrir náttúruvernd. Það var líka rætt um sjálfbærni íslensks landbúnaðar kom til umræðu sem og vistvernd og rætt var um leiðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda vegna landbúnaðar og vinna gegn óheillaþróun í loftslagsmálum almennt.

Það kom fram fyrir nefndinni að landbúnaður hefur ótvíræða þýðingu fyrir sjálfbærni íslensks samfélags þar sem landbúnaðargreinarnar nýta innlendar auðlindir í verulegum mæli til að framleiða neysluvarning sem landsmenn geta ekki verið án eða vilja nota í mataræði sínu. Meiri hlutinn áréttar að það er ávallt keppikefli að íslenskar landbúnaðarafurðir standist ýtrustu kröfur um heilnæmi, að framleiðsla þeirra sé næg og framleiðsluhættir svo tryggir að fæðuöryggi verði aldrei í uppnámi. Jafnframt telur meiri hlutinn mikilvægt að þess sé gætt að allt dýrahald sem fram fer í atvinnuskyni lúti kröfum um velferð og aðbúnað dýra og markmiðum um haldbæra landnýtingu.

Meiri hlutinn tekur undir að tryggja þurfi að stuðningur hins opinbera við innlenda landbúnaðarframleiðslu styrki og fjölgi stoðum landbúnaðar á grunni sjálfbærrar nýtingar í þágu loftslagsmála, umhverfis- og náttúruverndar og fjölbreytni í ræktun. Þá þurfa áherslur í styrkjakerfi landbúnaðar að styðja við fjölbreytta framleiðslu landbúnaðarafurða og auka þarf áherslu á jarðrækt og aðra landnýtingu, skógrækt, endurheimt vistkerfa, náttúruvernd og landvörslu á grunni efnahagslegrar, félagslegrar og umhverfislegrar sjálfbærni. Möguleikar bænda á að varðveita, vinna að endurheimt landgæða og að vörslu lands geta tryggt verðmæt almannagæði. Þá eru miklir möguleikar til framleiðslu fjölbreyttari landbúnaðarafurða, til að mynda nytjajurta með eflingu kornræktar. Fjölbreyttari landbúnaður og landbúnaðarframleiðsla má ekki verða á kostnað og getu til framleiðslu á mjólk, kjöti, grænmeti og annarri matvöru. Fjölbreyttari landbúnaður krefst öflugs stuðnings, a.m.k. í upphafi, eins og nú er gert ráð fyrir í kornrækt. Að því þarf að huga þegar ætlunin er að auka fjölbreytni eða breyta áherslum.

Við í meiri hlutanum tökum undir að huga þurfi sérstaklega að því að auðvelda kynslóðaskipti og nýliðun við ráðstöfun opinbers fjár eða við aðrar aðgerðir til að efla stoðir landbúnaðar. Það er líka mikilvægt að viðskiptakerfi með heimildir til bindingar kolefnis miði að því að tryggja bændum réttlátan hlut af framlagi þeirra, með þeim aðferðum sem bú þeirra kunna að ráða yfir. Hraða þarf vinnu vegna reiknaðrar losunar frá búfjárhaldi og ræktunarlandi. Mikilvægt er að tryggja réttlát umskipti í tengslum við loftslagsmál þannig að fjárhagslegri afkomu bænda sé ekki raskað vegna aukinna krafna í loftslagsmálum. Við í meiri hlutanum teljum að það þurfi að horfa til hvata sem verðlauni árangur í loftslagsmálum fremur en íþyngjandi krafna.

Meiri hlutinn tekur undir með umsagnaraðilum að búvöruframleiðsla hefur yfirleitt langan framleiðsluferil og því er nauðsynlegt að allar breytingar taki mið af langtímamarkmiðum og á þeim hraða að landbúnaður hafi möguleika á eðlilegri aðlögun að breyttum áherslum. Að sama skapi þarf stuðningur við landbúnað að skapa stöðugan og traustan grundvöll fyrir innlenda matvælaframleiðslu og fæðuöryggi. Einnig tekur meiri hlutinn undir þau sjónarmið sem matvælaráðherra hefur haft uppi í tengslum við endurskoðun búvörusamninga, sem er að gera ekki grundvallarbreytingar á samningunum.

Við fjölluðum einnig um möguleika neytenda á að velja neysluvöru á sínum forsendum og hafa með því í senn áhrif á eigin neyslu og framleiðslu landbúnaðarafurða og er það afar mikilvægt að mati meiri hlutans, því að við sem neytendur gerum jú kröfu um áreiðanlegar upplýsingar, m.a. um uppruna, framleiðsluaðferðir og innihald landbúnaðarvarnings sem á markaði er. Hér þurfa bæði framleiðslu- og úrvinnslugreinar í landbúnaði að mæta þessum kröfum skilyrðislaust. Neytendur kjósa einnig fjölbreytni í vöruframboði og landbúnaður á Íslandi verður að vera fær um að svara þeim kröfum eins og aðstæður framast leyfa. Við tökum undir að opinber stuðningur við landbúnað eigi að markast af þessum sjónarmiðum og öðrum sem lúta að því að tryggja eðlileg tengsl framleiðenda og neytenda á frjálsum markaði.

Tengsl landbúnaðar og byggðaþróunar komu líka til umræðu á vettvangi nefndarinnar enda landbúnaðurinn kjölfestuatvinnugrein í ýmsum byggðum landsins. Við í meiri hlutanum viljum árétta mikilvægi þess að þróa aðra starfsemi samhliða landbúnaðinum sem geti styrkt búsetu í sveitum og einnig menntunarleiðir með sama markmið í huga.

Í þingsályktunartillögunni er gert ráð fyrir því að gerðar verði áætlanir og birtar til fimm ára í senn. Fyrir nefndinni komu fram ábendingar um að þarna hefði mátt kveða fastar að orði um framkvæmdaáform og fjármagn sem þessar áætlanir ættu að byggjast á. Því beinum við því til ráðherra að hafa framangreint í huga við gerð áætlana.

Við teljum einnig mikilvægt að Alþingi marki stefnu í landbúnaðarmálum til langs tíma sem byggist á náttúru- og umhverfisverndarsjónarmiðum, hafi sjálfbærni að markmiði og sé til þess fallin að landbúnaður dafni og þjóni hagsmunum íslensks samfélags sem allra best í samtíð og framtíð. Meiri hlutinn álítur að fyrirliggjandi þingsályktunartillaga stuðli að þessum sjónarmiðum sem hér hafa verið reifuð.

Við í meiri hlutanum leggjum til nokkrar breytingar sem finna má hér í breytingartillögu sem fylgir nefndarálitinu.

Undir nefndarálitið rita hv. þingmenn, auk þeirrar sem hér stendur, Berglind Ósk Guðmundsdóttir, Friðjón R. Friðjónsson, Halla Signý Kristjánsdóttir, Teitur Björn Gunnarsson, Þórarinn Ingi Pétursson og Berglind Ósk Guðmundsdóttir.

Ég vil þakka nefndinni fyrir gott samstarf um þessa mikilvægu stefnu því að ég tek undir það sem hér er reifað, það er gríðarlega mikilvægt að við höfum góða og skýra stefnu í svo mikilvægu málum sem landbúnaðarmál eru. Það sem helst hefur verið reifað hér er að við höfum hér fæðuöryggi, sem við hljótum öll að vera sammála um að skiptir verulegu máli. Þar undir er auðvitað þessi stuðningur, að styrkja og styðja við nýsköpun en líka að það verði skilgreindar lágmarksbirgðir matvæla í landinu á hverjum tíma. Svo eru það auðvitað loftslagsmálin og líffræðilega fjölbreytnin sem hér er undir, en svo ræddum við líka talsvert, eins og við gerðum um matvælastefnuna, um neytendahlutann. Þar eru, eins og ég sagði hér bæði í gær og í atkvæðaskýringu áðan, margar leiðir til þess að upplýsa neytendur en kannski einna skilmerkilegast að gera það með merkingum á vöru sem hægt er að skanna eða eitthvað slíkt. Það eru til lausnir sem við þurfum ekki að finna upp og eiga ekki að þurfa að vera mjög íþyngjandi í sjálfu sér fyrir matvælaframleiðendur og landbúnaðinn. Ég held að það sé afskaplega mikilvægt, ekki síst í ljósi þess aukna innflutningi matvæla sem við búum við. Við erum líka svo heppin hér á Íslandi að sýklalyfjanotkun í framleiðslu, m.a. í sauðfjárrækt og öðrum atvinnugreinum, er í algeru lágmarki og það hlýtur að vera eitt af því sem við teljum okkur til tekna og skiptir gríðarlega miklu máli fyrir heilnæmi vörunnar.

Við þekkjum auðvitað þá umræðu, ekki bara hér á landi heldur líka í löndunum í kringum okkur, að uppruni innfluttrar vöru virðist ekki endilega alltaf vera á hreinu. Þarna held ég að séu gríðarleg tækifæri til þess að styðja við íslenskan landbúnað. Ég held að við eigum að efla enn frekar notkun íslenska fánans á vörum með þeim skilyrðum sem um það gilda þannig að það liggi fyrir að sú vara sem merkt er með þeim fána sé sannarlega íslensk en ekki, eins og komið hefur fram, flutt til landsins og marineruð og sett í umbúðir og sögð vera — eða a.m.k. ekki upplýst um að hún sé ekki íslensk, við skulum orða það þannig, eða búnir til úr vörunni hamborgarar af því að hakkavélin er boltuð hér í einhverri tiltekinni vinnslu. Allt þetta skiptir máli. Ég held að tilfinning fólks fyrir þessu sé að aukast ár frá ári og krafan einnig. Mér finnst þetta vera mikilvægt og að við nýtum þessar tækniframfarir til þróunar, bæði í framleiðslunni yfirleitt en líka til að koma upplýsingum til neytenda.

Síðan er mikilvægt atriði hér þar sem verið er að ræða um menntun, rannsóknir og þróun. Það er jú partur af því að þessar greinar sem falla undir landbúnaðinn nái að þroskast og þróast í takt við breytta tíma því breytingarnar eru talsverðar eins og við öll þekkjum. Þess vegna er ánægjulegt að hér er lögð áhersla á, hvort sem um er að ræða starfsmenntun eða háskólamenntun, að það sé tryggt að slík menntun sé í boði. Síðan er auðvitað líka mikilvægt að rannsóknarstarf fari fram og við setjum í það aukna fjármuni eins og við höfum verið að gera og talandi um kolefnismál þá fer nú fram m.a. rannsókn í Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri þar sem þau eru undir. Ég held að þetta sé eitt af því sem kemur til með að skipta gríðarlega miklu máli bæði í nánustu framtíð en líka til lengri framtíðar.

Ég veit að hér eiga eftir að koma margar ræður um það sem hér er undir og sem tilheyrir kannski einstökum þáttum þessarar stefnu en það er auðvitað brýnt að hugsa þetta heildstætt og taka inn í alla þá þætti sem hér eru undir. Ég tel að við séum að ná utan um það, hvort sem það eru loftslagsmálin, líffræðileg fjölbreytni, neytendurnir, menntunin, hringrásarhagkerfið. Ég held að við séum, svona eins og hægt er á hverjum tíma, að ná nokkuð vel utan um þetta. En ég hlakka til umræðunnar og vona að hún verði málefnaleg og trúi því að flestir fagni því að við séum hér komin fram með löngu tímabæra landbúnaðarstefnu.