145. löggjafarþing — 114. fundur,  22. maí 2016.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum.

777. mál
[22:17]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Jafnvel þó að það segði í ákvæðinu Seðlabankanum væri skylt að leita eftir slíkum upplýsingum þá mundi það ekki gagnast í tilviki þeirra sem hv. þingmaður ræddi um undir lok ræðu sinnar. Þá mundi ákvæðið aldrei ná yfir þá sem ekki hreyfa sig sem ætla bara að vera inni og bíða síns tíma. Það mundi því ekki bjarga því.

Ég er sammála honum í því að það mundi vera betra að kveða fastar að orði. Samt sem áður er ég undrandi yfir því hvað nefndin hefur verið umburðarlynd í skoðun sinni og túlkunum á þessu ákvæði. Ég hefði einhvern tímann a.m.k. lyft brúnum yfir þessu ákvæði og skoðað það dálítið vel. En það liggur algjörlega fyrir að sá maður í þessum sölum sem skoðað hefur tengsl Persónuverndar og stjórnarskrár hvað gerst, hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson, hefur marglýst því yfir í umræðunni að hann sé ekki hræddur við að ákvæðið stríði gegn stjórnarskránni. Hv. þm. Brynjar Níelsson, sem sökum sinnar fortíðar er með lærðari mönnum í þessum sölum varðandi þessa tilteknu þætti, hefur lýst hinu sama. Þá er ég rólegur. En hins vegar vil ég trúa hv. þingmanni fyrir því hér yfir þetta púlt að þarna er þingið að seilast ansi djúpt. Ég tel hins vegar að markmiðið sé göfugt.

Ég tel líka, eins og ég reifa í ræðu minni á eftir, að það sé ekki tilviljun að ákvæðið búi yfir þessari dýpt. Ég held að með því séu höfundar frumvarpsins, sem ég hygg að séu sérfræðingar Seðlabankans, að búa sér til forsendur til þess að afla varna ef til mögulegs málareksturs kemur. Þá held ég nefnilega, andstætt hv. þm. Brynjari Níelssyni, að það skipti máli að geta sýnt fram á að það séu Íslendingar og hugsanlega margir sem eru í þessum hópi.