149. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[15:43]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Halla Signý Kristjánsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta svar. Við fengum fjölda gesta til okkar og ég held að við höfum nú tekið tillit til ýmissa ábendinga þó að við færum ekki eftir þeim öllum.

Hv. þingmaður talar hér um utanspítalaþjónustu. Mig langar að spyrja hvort hv. þingmaður hafi ekki lesið þingsályktunartillögu sem samþykkt var um mótun stefnu um bráðaþjónustu utan spítala sem velferðarnefnd lagði fram og hefur verið samþykkt þar segir, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að móta heildstæða opinbera stefnu um rekstur og skipulag bráðaþjónustu utan spítala. Markmið stefnunnar verði að formfesta samstarf þeirra sem sinna þjónustunni, skilgreina með skýrari hætti ábyrgð og verkaskiptingu innan hennar og efla menntun, endurmenntun og starfsþjálfun þeirra sem starfa við sjúkra- og neyðarflutninga og veita bráðaþjónustu á vettvangi slysa eða í öðrum neyðartilvikum.“

Þarna var velferðarnefnd að bregðast við áskorun og þessi umræða var jafnvel komin fram áður en við fórum að fjalla um heilbrigðisstefnuna. En þetta er alveg gríðarlega mikilvægt þar sem við erum að skilgreina heilbrigðisþjónustuna og festa hana svolítið, við urðum að skipta þriðja stigs þjónustunni. Þá erum við komin með þjónustu á öllum stigum út á vegi landsins. Telur hv. þingmaður ekki vera nóg að gert í þessum málum? Eða hver er skoðun hans á því?