Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2023.

landbúnaðarstefna til ársins 2040.

914. mál
[17:19]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka framsögumanni fyrir afbragðsgóða og skýra framsögu í þessu ágæta máli. En það sem mig langaði að ræða hér örstutt við hv. þingmann er hvort það mætti ekki taka til umræðu frekar, einmitt í tengslum við þetta málefni, uppsöfnun auðmanna á landi og jafnvel erlendir auðmenn hafa eignast 1,4% af íslensku landi. Er ekki tímabært að einhverju leyti að brjóta þetta eignarhald upp? Ef menn ætla að ná fram ágætum markmiðum þingsályktunartillögunnar sem felast m.a. í nýliðun, þá getur enginn sem ætlar að fara í landbúnað, hefðbundinn eða annan, keppt við uppkaup auðmanna sem hafa ómælda sjóði að grípa í. Einnig hvað varðar matvælaöryggið, að tryggja að ræktarland lendi ekki í höndunum á einhverjum sem ætla að nota íslenskt landbúnaðarland sem einhverjar sportlendur. Ég held að þetta sé eitthvað sem sé mjög þarft að ræða opinskátt hér á hinu háa Alþingi.