Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2023.

landbúnaðarstefna til ársins 2040.

914. mál
[18:11]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F):

Frú forseti. Hér ræðum við þingsályktunartillögu um landbúnaðarstefnu til ársins 2040 og sömuleiðis nefndarálit meiri hluta atvinnuveganefndar. Það ber að þakka að við erum þó komin á þann stað að við erum farin að ræða hér fyrstu landbúnaðarstefnuna sem kemur hér til skjala Alþingis og hefur verið í vinnslu hjá hv. atvinnuveganefnd nú í vetur. Það er tæpt á mörgu og farið ágætlega yfir marga hluti í stefnunni. Vissulega hefði verið gott að hafa aðgerðaáætlun við ýmsa liði en það kemur fram sömuleiðis í nefndaráliti og greinargerð sem fylgir að það verði horft til þess að að uppfæra ýmsa liði á fimm ára fresti. Ég tel að við séum að taka hér gott fyrsta skref og sérstaklega í ljósi þess að hér í gær og bara núna áðan þá tókum við umræðu um og greiddum atkvæði um matvælastefnu þannig að við erum komin með ágætan vegvísi til framtíðar um það hvert við stefnum. Það er líka mjög mikilvægt að hafa það í huga að með þessari landbúnaðarstefnu sem um ræðir núna og matvælastefnu sömuleiðis eru stjórnvöld að segja að þau ætli að standa með innlendri matvælaframleiðslu og landbúnaði á Íslandi.

Ef við hlaupum yfir nokkur atriði í stefnunni þá ber fyrst á góma 15 stafliði þar sem farið er yfir það að framtíðarsýnin í landbúnaði taki til umhverfis, samfélags og samkeppnishæfni og síðan er það rakið í þessum 15 stafliðum, sem ég ætla svo sem ekki að eyða tíma í að fara yfir heldur tæpa á öðrum atriðum í stefnunni. Það er mikilvægt að fara yfir þá punkta sem lögð er sérstök áhersla á og þar kemur fyrst fæðuöryggi þjóðarinnar. Það er náttúrlega grunnur hverrar sjálfstæðrar þjóðar að geta tryggt fæðuöryggi sitt. Fæðuöryggi er vissulega ákveðin áskorun fyrir okkur sem búum hér á eyju norður í Atlantshafi. Við höfum ekki sömu tækifæri og suðrænar þjóðir til akuryrkju en vissulega er það samt þannig að við höfum bætt okkur verulega, sérstaklega hvað varðar garðyrkju. Við höfum sérstöðu miðað við aðrar þjóðir er varðar ylrækt og gróðurhús og þar getum við gert mun betur. Við erum ágætlega sett í framleiðslu á tómötum, gúrkum og paprikum. Við erum í sjálfu sér bara að framleiða nægilegt magn af papriku, en við getum bætt mikið í hvað varðar tómata og gúrkur, við erum einungis að framleiða sirka helming af því magni sem landinn neytir. Þar eru vissulega tækifæri. Þegar kemur að garðyrkjunni, útiræktun á grænmeti, hafa menn gefið töluvert eftir. En með aðgerðum og hvatningu til garðyrkjubænda hafa bændur verið að nýta sér tæknina og verið að nýta önnur yrki líka sem standast þá veðráttu sem hér geisar stundum, þó að nú í dag sé fallegur dagur og sérstaklega á Norðurlandi, þar er náttúrlega mun betra veður en á Suðurlandinu en það er svo sem ekkert nýmæli. En aftur á móti eru gríðarleg sóknartækifæri fyrir okkur er kemur að akuryrkjunni, þ.e. að framleiða korn. Uppi er áætlun á vegum hæstv. matvælaráðherra upp á 2 milljarða til næstu fjögurra ára um eflingu kornræktar og þar eigum við mikið inni. Til skepnufóðurs erum við að nýta um 180.000 tonn á ári en erum einungis að framleiða um 7.000 tonn þannig að þar eigum við mikið inni.

Í þessari stefnu er rætt um loftslagsmál og það hefur verið töluverð umræða hér bæði í dag og í gær um kolefnishlutleysi landbúnaðarins. Það eru mikil tækifæri, bæði er varðar það að draga úr losun og í mótvægisaðgerðum sem snúa að landgræðslu og skógrækt. Það eru vissulega mikil tækifæri fólgin í því skrefi sem verður vonandi stigið með sameiningu Landgræðslunnar og Skógræktarinnar, mikilvægi þess að renna saman þeim kröftum sem þar koma til í því verkefni sem fram undan er því að við eigum nóg af landi, Íslendingar. Það er eitt af því fáa sem við eigum nóg af, það er nóg til að landi sem veitir ekki af andlitsupplyftingu með landgræðslu og skógrækt. Sömuleiðis getum við nýtt það sama þegar sprottinn verður upp skógur og melar orðnir algrónir, þá er þar vissulega verið að binda kolefni.

Það eru líka áskoranir er snúa að því hvernig við nýtum landið. Það var umræða hér áðan, hv. þm. Sigurjón Þórðarson ræddi eignarhald á landi sömuleiðis. En fyrst og fremst er landnýting og það hvernig við ætlum að nýta landið til framtíðar, skipulagsmál sveitarfélaga og það er ekki á hendi ríkisins. Það er mjög mikilvægt að sveitarfélög klári sína skipulagsvinnu og skilgreini hvað er landbúnaðarland og standi vörð um landbúnaðarland til framtíðar því að það veit enginn sína ævi fyrr en öll er, eins og sagt er. Það á við um ansi mikið af landi hjá okkur að við höfum farið svolítið frjálslega með það, virkilega gott ræktarland þegar land annars staðar hefði kannski getað nýst betur til landgræðslu eða skógræktar. Ég vil ítreka það, virðulegur forseti, að það eru fyrst og fremst sveitarfélögin sem þurfa að klára sína vinnu hvað þetta varðar.

Þegar við fjöllum um rekstrarskilyrði, afkomu bænda og fleira þá er hægt að grípa niður í mjög góða ræðu sem var flutt hér áðan af hv. þm. Teiti Birni Einarssyni, hann fór ágætlega yfir það í sinni ræðu. Ég ætla aðeins að hnykkja betur á því sem kemur að afkomunni. Ef við ætlum að horfa til nýliðunar í landbúnaði þá er númer eitt, tvö og þrjú að þeir sem stunda landbúnað hafi afkomu af því sem þeir eru að gera. Afkoma bænda í dag er því miður á mörgum sviðum óviðunandi. Það væri mjög fróðlegt í ljósi þess sem stundum hefur verið rætt um og snýr að styttingu vinnuviku og þess háttar, að menn veltu fyrir sér hversu margar vinnustundir bændur þessa lands eru að vinna á viku. Margir hverjir eru í fullu starfi utan bús sem hér áður fyrr var meira en fullt starf að sinna þannig að menn eru í tveimur störfum til þess eins að framleiða mat. En það er lykilatriðið í allri nýliðun að menn hafi afkomu af því sem þeir eru að gera og auk þess þurfum við að taka verulega til endurskoðunar aðgang að fjármagni og aðgang að fjármagni til nýliða til að kaupa jörð með öllu tilheyrandi. Þetta er gríðarleg fjárbinding. Við þurfum í því ljósi mjög þolinmótt fjármagn. Þetta er langur framleiðsluferill og kostnaðarsamur og það er hægt að segja líka að það er ekki alltaf fyrir hendi mikil og öflug launageta heima fyrir. En ef við horfum til þess og við berum gæfu til þess að stíga það skref að hafa ákveðna fyrirgreiðslu til nýliða og að afkoman í greininni sé ásættanleg þá hef ég ekki áhyggjur af nýliðun í landbúnaðarstétt.

En hvernig förum við að því að tryggja það að menn hafi afkomu af því sem þeir eru að gera? Ég ætla að nefna bara eitt atriði í því samhengi sem er verulega stórt og er á hendi löggjafans, þ.e. að menn hafi heimildir til samstarfs og samvinnu og geti hagrætt í sínum rekstri. Við vitum að þessi leið var farin í mjólkurframleiðslunni og hefur skilað ákveðnum ábata en í sauðfénu t.d. er þetta ekki fyrir hendi. En það er lykilatriði í því breytta starfsumhverfi landbúnaðarins hér á landi að menn fái þessar heimildir, rúmar heimildir til samstarfs og samvinnu, bændum og neytendum ekki síst til til góða.

Virðulegur forseti. Það ber nú stundum þannig við að maður gleymir á hverju maður ætlar að byrja í ræðunni og vissulega gleymdi ég algerlega að þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur fyrir framsöguna á málinu og sömuleiðis fyrir gott samstarf í hv. atvinnuveganefnd. Það hefur verið fróðlegt og gott og áhugavert að vinna þetta. Þótt sumum hv. þingmönnum hafi fundist þetta mál vera bara bundið við einn flokk, og vissulega er það matvælaráðherra sem leggur málið, fram þá er það nú þannig að áhugi flestra þingmanna, held ég, sérstaklega ríkisstjórnarmegin, hefur verið ansi mikill á málinu. Ég verð að minnast á það að ágætur hv. fyrrverandi þingmaður og núverandi bæjarstjóri á Akranesi hafði töluvert til málanna að leggja, það má ekki gleyma því, og er að sjálfsögðu starfandi bóndi líka eins og sá sem hér stendur.

Það er tekið á þáttum í þessari stefnu þar sem við mörkum leiðina til framtíðar. Það verður að segjast eins og er að í öllu þessu róti sem við eigum við í dag, þessu alþjóðaróti, megum við aldrei gleyma upprunanum og á hvaða grunni við byggjum velferðina. Það er frumframleiðsla númer eitt, tvö og þrjú. Það er undirstaða þess að við getum haft hér velferðarsamfélag. Landbúnaður er að sjálfsögðu ekkert annað en frumframleiðsla og ef við treystum grunninn enn frekar í því — og ég tel að það sé verið að stíga það góða skref til framtíðar með þessari stefnu — þá getum við vonandi eftir 17 ár horft til þessa og sagt: Þetta var góður dagur hér á Alþingi þegar við fjölluðum um landbúnaðarstefnu, hér í síðari umræðu. Vonandi kemur hún til atkvæða fljótlega.

Það eru hérna atriði, virðulegur forseti, sem á eftir að minnast á. Ég ætla nú ekki að fara yfir þau öll en það er mjög mikilvægt að við horfum með gagnrýnum augum á það stuðningsfyrirkomulag sem við erum með í landbúnaði. Ég ætla bara að leyfa mér að segja að ég tala af ágætri reynslu þegar kemur að stuðningskerfi landbúnaðarins. Ég verð að segja það að þrátt fyrir að hafa komið að gerð búvörusamninga í fyrra lífi þá er það í sjálfu sér ekkert endilega eina rétta leiðin varðandi það hvernig við bindum niður stuðninginn. Við þurfum að horfa til þess að lykillinn að afkomu landbúnaðarins byggir ekki á því hvað menn hafa í stuðning frá hinu opinbera. Afkoman byggir á því að menn fái greitt vel fyrir þær afurðir sem þeir framleiða. Það er lykilatriði. Við getum komið að með ýmsu móti, við getum haft ákveðinn stuðning sem felst í því að menn borgi út á land eða hvernig sem við viljum sjá það, en við verðum alltaf að haga stuðningnum þannig að hann sé hvetjandi fyrir bændur til þess að framleiða góðar og hollar afurðir. Það er lykilatriði. Lykilatriðið er ekki það hversu mörg ærgildi menn eiga eða því um líkt, heldur að það sé hvati til þess að framleiða næg matvæli, það er númer eitt, tvö og þrjú, og að menn hafi afkomu af því sem þeir eru að gera. Þá þurfa líka stjórnvöld að horfa til þess hvernig starfsumhverfið er í greininni. Það geta verið til margar leiðir, þó að ég hafi svo sem komið inn á eina leið áðan, en hún þarf heldur ekkert að vera sú eina rétta í stöðunni. Við eigum að vera ófeimin við það að ræða um stuðning landbúnaðarins og velta því fyrirkomulagi fyrir okkur. Vissulega þurfa bændur að koma að því með stjórnvöldum en það fyrirkomulag sem við höfum á þeim stuðningi í dag er ekki meitlað í stein. Og landbúnaður er ekki bara kjöt og mjólk, langt í frá. Það er akuryrkjan, garðyrkjan og sömuleiðis er landbúnaður skógrækt og landgræðsla. Það er landbúnaður. Það eru tækifæri til verðmætasköpunar fyrst og fremst í því að nýta auðlindina, landið. Síðan eru það afurðirnar sem við nýtum sem tryggja okkur afkomu.

Virðulegi forseti. Mér finnst þessi þingsályktunartillaga um landbúnaðarstefnu til ársins 2040 marka nokkuð vel þann veg að grunnurinn að framtíðinni byggir á því að nýta auðlindir landsins til góðra verka, þ.e. að framleiða matvæli og aðrar afurðir, hvort sem það í kornrækt, garðyrkju, trjárækt eða hverju sem er. Númer eitt, tvö og þrjú er það að landbúnaður byggir á nýtingu auðlinda á landi og þessi þingsályktunartillaga um landbúnaðarstefnu nær ágætlega til hennar.