149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[21:42]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki rétt að ég hafi gert lítið úr þeim sem hafa gagnrýnt rök ríkisstjórnarinnar fyrir nýrri fjármálastefnu. Ég hef einfaldlega sagt að málflutningur þeirra horfi allt of lítið til stöðunnar í hagkerfinu og einblíni eingöngu á þau markmið sem fram komu í þeirri fjármálastefnu sem við höfum áður samþykkt, 2017, og svo hanga menn bara á þeim tölum sem þar eru og segja: Við þurfum að standa við það sem þar var sagt. Ég segi bara við menn: Komið inn í raunveruleikann sem við búum í í dag og spyrjið ykkur hvers vegna við erum að þessu öllu saman. (Gripið fram í.) Við erum að stilla opinber fjármál þannig að við náum þeim grunngildum, markmiðum laganna sem eru lögfest. Við erum að hjálpa fólki að draga fram lífið, bæta lífskjörin og auka kaupmáttinn, vinna að stöðugleika, halda verðbólgu niðri, atvinnustiginu háu, greiða upp skuldir o.s.frv. og árangur okkar verður mældur á þessa mælikvarða, (Forseti hringir.) ekki á mælikvarða í tölusettum markmiðum frá árinu 2017.